Þjóðin lætur ekki stjórnmálamenn ráða hver verður forseti

Kosningabaráttan í aðdraganda forsetakosninga mun hafa augljós áhrif á stjórnmálin og komandi þingkosningar og nú hefur þjóðin enn á ný gefið það skýrt til kynna að hún láti ekki stjórnmálamenn segja sér fyrir verkum hvern hún eigi að kjósa sem forseta. Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm alþjóðastjórnmálafræðingur en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Jón segir að sé horft til ársins 1952 hafi sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fylgt sér að baki séra Bjarna Jónssyni sem þá var í framboð til forseta Íslands og þau boð látin ganga að séra Bjarni væri frambjóðandi sem þessum tveimur flokkum væri þóknanlegur. Jón segir að með þessu hafi verið til þess ætlast að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn úti um land allt myndu kjósa Bjarna. Gunnar Thoroddsen þáverandi borgarstjóri hafi hins vegar skrifað grein sem bar yfirskriftina: Þjóðin kýs, þar sem hann hafnaði þessari tilraun, að láta fólk kjósa eftir flokkslínum.

Forsetakosningar geta haft langtímaáhrif á stjórnmálin

Þetta hafði þau áhrif á stjórnmálferil Gunnars að hann klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði ríkisstjórn án stuðnings þorra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Jón segir þetta gott dæmi um hvernig forsetakosningar geti haft langtímaáhrif á stjórnmálin og bendir á að þegar Gunnar bauð sig svo fram til forseta hafi þetta verið notað gegn honum.

Baldur Þórhallsson má vel við una miðað við aðstæður

Sé horft á málin í dag þá sitji núna Katrín Jakobsdóttir á heimili sínu að Meistaravöllum atvinnulaus en hafði fyrir nokkrum vikum verið forsætisráðherra. Halla Hrund og fleiri hafa ekki riðið feitum hesti í þessari kosningabaráttu en Baldur Þórhallsson hins vegar kom sá og sigraði því hann kom úr þeirri átt að talsvert hugrekki þurfti til þess að hann byði fram.

Sumt er geymt en ekki gleymt

Segir Jón ljóst að kosningabaráttan hafi skaðað þá fylgismenn ákveðinna fylkinga sem höguðu sér óskynsamlega og dónalega í kosningabaráttunni og ljóst að þetta mun hafa þau áhrif að sumt af því sem gert var er geymt en ekki gleymt.

Hann segir að Katrínu Jakobsdóttur hafi ekki verið refsað fyrir verk sín í stjórnmálum í kosningunum heldur hafi þjóðin einfaldlega sagt hingað og ekki lengra og hún ætli ekki að láta troða þessum súra hafragraut sem verið væri að bjóða upp á ofan í kokið á henni.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um forsetakosningarnar í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila