Þöggun er þáttur í menningarbyltingunni

Í dag ræddu þau Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson í síðdegisútvarpinu um stöðu mála hjá embætti ríkissaksóknara eftir að óskað var eftir því við dómsmálaráðherra að setja Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara í tímabundið leyfi. Fram kom í þættinum að það væri skoðun útaf fyrir sig hvort þetta væri partur af þeirri menningarbyltingu og eyðileggingu sem sé verið að innleiða í íslenskt samfélag. Birtingamyndin væri sú að menn í áhrifastöðum, sem segja sannleikann í viðkvæmum málum, verða fyrir aðkasti og niðurlægingu og þannig reynt að fjarlægja allar hindranir. Er það gert til þess að draga úr trúverðugleika viðkomandi aðila og skapa tortryggni um störf þeirra. Rógburður fylgir oft í kjölfar þess og þannig reynt að lama viðkomandi aðila í starfi sínu því vitað er að slík meðferð á fólki getur haft í för með sér alvarlegan kælingarmátt. Afleiðingin getur orðið algjör þöggun um ákveðin málefni eins og raunin er í hælisleitendamálum.

Þjóðinni stafar hætta af glæpamönnum

Í þættinum kom fram að mál Helga Magnúsar Gunnarsson vararíkissaksóknara gæti verið glöggt dæmi um þessa stefnu sem kemur til af menningarbyltingunni. Helgi Magnús hefur nýverið og áður sagt frá persónulegri skoðun sinni á málefnum útlendinga sem hingað koma til þess að fremja margvíslega glæpi og villa jafnvel á sér heimildir til þess að komast inn í landið. Helgi Magnús hafi fullan rétt á að vara við eftir að hafa þurft að þola líflátshótanir gegn sér og fjölskyldu sinni á 2-3ja ára tímabili af hálfu Muhamed Kourani sem nýverið var dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir meiriháttar líkamsmeiðingar. Þjóðfélaginu stafi hætta af þessu ástandi ef tekið er mið af því sem hefur verið að gerast í nágrannalöndunum.

Alvarlegt ef embætti ríkissaksóknara beitir þöggun

Embætti ríkissaksóknara sem fer með æðsta ákæruvald þjóðarinnar á að hafa þá skyldu að leysa sakamál með þeim hætti að tryggja vernd borgarana. Ef embætti ríkissaksóknara beitir þöggun varðandi upplýsingar sem varða almenning og styðja við öryggishagsmuni þjóðarinnar þá skapar það óvissuástand sem reynst getur hættulegt borgurunum. Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér ítarlegar greiningarskýrslur allt frá árinu 2017 þar sem sagt er að þjóðinni stafi fyrst og fremst hætta af skipulagðri glæpastarfsemi að náttúruhamförum frátöldum. Þá sé það jafnframt staðreynd að 75% gæsluvarðhaldsfanga séu af erlendum uppruna samkvæmt upplýsingum frá fangelsisyfirvöldum. Eðlilegt sé að þessi mál séu í umræðunni og fólk treysti því að fá bæði réttar og nákvæmar upplýsingar um gang þessara mála frá ábyrgum aðilum.

Ráðist á Ásmund Friðriksson alþingismann fyrir að vilja bakgrunnskanna hælisleitendur

Þöggun varðandi málefni hælisleitenda hafi berlega komið í ljós á árinu 2016 þegar verið var að samþykkja útlendingalögin en þá hafi Ásmundur Friðriksson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins komið með þær athugasemdir að nauðsynlegt væri að bakgrunnsskoða þá aðila sem sæktu um alþjóðlega vernd við komu til Íslands. Ásmundur hafi verið úthrópaður fyrir þessa skoðun sína og verið reynt að grafa undan starfi hans sem þingmanns og ráðist að persónu hans og fjölskyldu.

Í þættinum var talað við Ásmund Friðriksson alþingismann um málið og birtist önnur frétt hér á útvarpsaga.is um það viðtal.

Hlusta má á ítarlegar umræður um þetta mál í spilaranum hér að neðan og á utvarpsaga.is – þættir

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila