Þorsteinn Már sagði ósatt – Héraðssaksóknari felldi engin mál niður á hendur Samherja

Fullyrðingar Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja sem haldið hefur því fram, meðal annars á heimasíðu Samherja að mál sem voru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara hafi verið felld niður og réttarstaða þeirra einstaklinga sem eiga í hlut einnig, eru ósannar.

Þetta staðfesti héraðssaksóknari með tölvupósti þegar Útvarp Saga spurðist fyrir um málið.

Í tölvupósti héraðssaksóknara segir að hið rétta sé að um tvö mál hafi verið að ræða, þ,e skattamál hinsvegar og rannsókn embættisins á meintum mútubrotum og meintu peningaþvætti.

Héraðssaksóknari útskýrir í tölvupóstinum að skattamálið hafi verið endursent til skattsins sem sá um að klára málið með endurálagningu sem Samherjamenn féllust á að greiða. Því hafi Héraðssaksóknari ekki fellt málið niður eins og skilja má á fullyrðingum Þorsteins, Þá hafi mál sem varði meint mútubrot og meint peningaþvætti ekki verið fellt niður og er enn til rannsóknar hjá embættinu.

Í grein á vef Samherja er vitnað í orð Þorsteins þar sem hann segir:

„Mál sem voru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara hafa verið felld niður og réttarstaða þeirra einstaklinga sem eiga í hlut einnig.“

Á orðalagi Þorsteins má skilja að bæði málin sem um ræðir, þ,e skattamálið annars vegar og rannsókn héraðssaksóknara á meintu mútubroti og meintu peningaþvætti hafi verið felld niður, en eins og kemur fram að ofan hafa engin mál verið felld niður af hálfu héraðssaksóknara.

Í fréttinni á vef Samherja segir Þorsteinn einnig:

„Fyrir þremur árum voru settar fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur okkur um skattsvik og peningaþvætti sem var sagt hlaupa á milljörðum króna. Nú er komið í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í þeim ásökunum“

Erlendir fjölmiðlar virðast hafa tekið orð Þorsteins Más góð og gild því á vef sjávarútvegsmiðilsins Intrafish má sjá frétt þar sem því er slegið upp að málunum gegn Samherja og helstu lykilmönnum sé lokið en þar stendur meðal annars:

„Icelandic Fisheries giant Samherji has been cleared of tax evasion and money laundering“

Svipaðar fréttir þar sem þessu er haldið fram má sjá á fleiri erlendum miðlum.

Ekki liggur fyrir hvenær rannsókn héraðssaksóknara á meintum mútubrotum og meintu peningaþvætti Samherjamanna lýkur.

Deila