Þorvaldur: Afar ólíklegt að gos komi upp í Grindavík

Það er afar ólíklegt að það gjósi inni í bænum sjálfum því það er engin kvika undir Grindavík. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu í dag.

Eldgos í fortíðinni hafa öll komið upp norðan við Grindavík

Þorvaldur segir að til þess að það gæti gosið inni í bænum sjálfum þá þyrfi kvika að vera undir Grindavík og þar sé kvika einfaldlega ekki til staðar. Hann segir að þegar horft sé á þau berglög sem eru á þessu svæði og nálægum svæðum megi sjá að þeir staðir sem gos hafi komið upp í fortíðinni þá séu þau öll norðan við Grindavík en engin sunnan við. Þetta sjáist af ákveðinni línu sem liggur frá berglögunum sem séu sýnileg með berum augum í Herdísarvík og í beinni línu þaðan og yfir Reykjanesskagann.

Það getur ekki gosið í Vogum, Sandgerði eða Höfnum

Þetta þýði að það geti ekki gosið við Voga, Sandgerði eða Hafnir og því geti íbúar á þeim svæðum andað nokkuð rólega þó von sé á gosi á Reykjanesskaganum. Það væri þó þannig að þessir bæir geti orðið fyrir einhverjum áhrifum af gosi sem kæmi upp á nálægum svæðum. Nefna megi að hraun geti runnið í átt að Vogum.

Reykjanesvirkjun og fiskeldið á svæðinu gæti verið í hættu vegna hraunrennslis

Þorvaldur segir það alltaf vera einhverja hættu á að innviðir á nálægum svæðum við gos séu í hættu. Þorvaldur nefnir í því sambandi að Reykjanesvirkjun og fiskeldið sem þar er gæti verið í hættu af völdum hraunrennslis ef gos kæmi upp á ákveðnum stöðum. Straumur hraunrennslis færi eftir því hvar gos kæmi upp hverju sinni og því ómögulegt að spá fyrir um mögulegar afleiðingar hraunrennslis fyrr en gos kæmi upp.

Gos á Krísuvíkurreyninni opnar á stórt svæði sem nær upp í Heiðmörk

Þá bendir Þorvaldur á að af gos kæmi upp á Krísuvíkurreyninni þá sé mjög stórt svæði undir og nái alla leið upp í Heiðmörk þar sem á undanförnum árum hafi verið að myndast sprungur. Þá geti einnig alltaf gosið í Henglinum og þar sé Hellisheiðarvirkjun undir sem gæti þá verið í hættu.

Gamlir gígar ofan við Nesjavallavirkjum gætu gosið aftur

Einnig sé ekki hægt að útiloka gos á öðrum svæðum og nefnir Þorvaldur að hæðirnar fyrir ofan Nesjavallavirkjun séu gamlir gígar sem hafi gosið í fyrndinni og þar gæti allt eins gosið aftur.

Mikilvægt að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum

Hann segir að menn ættu því að huga að því að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum þegar kemur að eldsumbrotum því aðgerðir í viðbragði eins og nú sé verið að gera séu mun dýrari. Það væri hægt að nýta alla þá þekkingu sem til er hér á landi til þess einmitt að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum. Stundum sé það þó því miður svo að hagsmunaöfl standi í vegi fyrir slíkum framkvæmdum sem sé miður.

Hlusta má á ítarlega umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila