Neðra kvikuhólfið sem liggur undir Svartsengi er gríðarstórt og hvað upp úr því kemur og yfir í grynnra hólfið er oft það sem ræður aburðarrásinni sem fer af stað þegar verður eldgos. Til marks um stærð hólfsins þá er það um tíu kílómetrar á breidd og liggur hólfið á tíu til tólf kílómetra dýpi. Við erum greinilega komin í langt eldgosatímabil. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði en hann var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.
Nú hafa safnast 20 milljón rúmmetrar af kviku í efra hólfið sem er það hólf sem gýs úr og segir Þorvaldur að það sé það magn sem miðað hafi verið við til þess að koma gosi af stað. Hvort það svo gerist verði bara að koma í ljós. Aðspurður um hvort magnið gæti náð 25 milljón rúmmetrum áður en það gýs segir hann að ekkert sé hægt að útiloka í þeim efnum.
Við erum komin í eldgosatímabil sem getur staðið í 400 ár
Hvað neðra kvikuhólfið varðar segir Þorvaldur að sú kvika sem þar sé hafi verið komin þangað árið 2017 og það sé ekki svo fyrr en í fyrsta gosi sem varð við Fagradalsfjall sem fólk hafi í raun orðið vart við hana. Þetta sýni að kvika geti legið í talsverðan tíma undir yfirborði án þess að nokkuð gerist. Þegar kvikan fer af stað og eins og nú hefur raungerst þá erum við komin inn í eldgosatímabil sem geti staðið yfir í 400 ár ef því er að skipta.
Hraun getur hæglega flætt yfir varnargarðana
Þorvaldur segir að fari svo að gjósi á næstu dögum séum við í raun að horfa á endirtekið efni frá síðustu gosum og það sé ekkert sem bendi sérstaklega til þess að atburðarrásin verði eitthvað öðruvísi nú en í síðustu gosum. Alltaf sé þó hætta á að innviðir geti verið í hættu og þá sé heldur ekki hægt að útiloka að hraun geti flætt yfir þá varnargarða sem hafi verið gerðir.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan