Þriðji bankinn fellur í Bandaríkjunum

„Alltaf sömu bólurnar frá Wall Street“ stendur á litógrafíu teiknarans Joseph Keppler sem prentuð var hjá litógrafíska fyrirtækinu J. Ottman líklega fyrir kreppuna miklu á fjórða áratug 20. aldar. J.P.Morgan er naut fjármálamarkaðarins sem blæs sápukúlur fyrir æsta fjárfesta. Margar bólurnar bera orðin „útþynnt verðmæti.“

Bandarísk yfirvöld loka starfsemi bankarisans Signature Bank í New York, sem verður þar með þriðji bandaríski bankinn sem fellur á jafn mörgum dögum. Á fimmtudag og föstudag var ljóst að bankarnir Silvergate og Silicon Valley Bank fara í fjárgreiðslustöðvun. Reiknað er með að þeim ákvörðunum verði breytt í gjaldþrot innan skamms.

Aðfaranótt mánudags að íslenskum tíma tilkynntu yfirvöld í New York að Signature Bank hafi einnig fallið en efnahagsreikningur bankans samanstóð að hluta til af „rafrænum gildum.“ Yfirvöld hafa tekið yfir viðskiptin „til að vernda reikningseigendur.“ Sagt er að viðskiptavinir eigi að hafa aðgang að innlánum sínum, einnig þeim sem fara yfir eðlileg mörk þess sem innstæðutrygging yfirvalda ábyrgist. Þó eru nokkrar undantekningar. Frá þessu greinir sænski miðillinn Frjálsir Tímar.

Búist við lækkun hlutabréfamarkaða um allan heim í dag

Bankinn er innifalinn í hinni mikilvægu hlutabréfavísitölu S&P 500 og er skráður í Nasdaq kauphöllinni, sem þýðir að bankahrunið er talið draga verulega niður hlutabréfamarkaði heimsins þegar þeir opna í dag, mánudag. Á mörkuðum sem voru opnir hækkaði gull um 0,66% í dollurum eftir fréttir af lokun banka og hækkaði dollarinn lítillega gagnvart sænsku krónunni.

Allar innstæður í Silicon Valley Bank, SVB, verða tryggðar af ríkinu og verða aðgengilegar viðskiptavinum frá og með mánudagsmorgni, samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu frá Janet Yellen fjármálaráðherra, Jerome Powell seðlabankastjóra og Martin Gruenberg, sem er stjórnarformaður tryggingarsjóðs- og bankaeftirlits ríkisins FDIC. Í yfirlýsingunni segja þau að „ekkert af því fjárhagstjóni sem tengjast slitum Silicon Valley Bank verður lagt á herðar skattgreiðenda.“

Viðskiptavinirnir og skattgreiðendur látnir borga brúsann

Hugmyndin er að gjöld á aðra banka muni fjármagna meðhöndlun hrunsins. Hins vegar er óljóst hvort þetta eigi einnig við um hina tvo bankana sem eru fallnir og allt óvíst um framhaldið og hvort fleiri bankar fara á hausinn. Alveg eins og í Icesave, þá dugar tryggingarsjóðurinn engan veginn fyrir kerfishruni heldur einungis fyrir einstaka banka sem falla innan kerfisins. Það er því eitt stærsta markaðssvindl nútímans, að innistæðueigendum sem í dag heita innlánendur, sé tryggt ákveðin lágmarksupphæð ef bankinn fer í gjaldþrot. Ríkið – hvorki í Bandaríkjunum né á Íslandi, ræður við að greiða innistæðueigendum tjónið ef fjármálakerfið leggst á hliðina. Að hlutverki innistæðueigenda var breytt í innlánendur var einmitt gert, til að viðskiptavinir bankans taki sjálfir áhættuna, ef bankinn klúðrar viðskiptunum. Það var Íslendingum lán í óláni að ekki var búið að breyta þeirri reglu þegar Icesaveþjófar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar riðu feitri gæs á lagaskorti ESB áður en þeir settu bankann og Baug á hausinn og lögðu þýfið inn á reikning í „bankahimnaríki.“

Deila