Þrír fluttir á slysadeild eftir stunguárás í Bankastræti Club

Þrír voru fluttir á slysadeild eftir að hafa orðið fyrir hnífsstungum á skemmtistaðnum Bankastræti Club í kvöld. Sjónarvottar segja hóp manna hafa hulið andlit sitt og hlaupið inn á staðinn, stungið þar þrjá einstaklinga og við svo búið hafi mennirnir hlaupið út af staðnum og um borð í bíl sem beið þeirra fyrir utan og hraðað sér af vettvangi.

Sérsveitin ásamt öðrum lögreglumönnum leita nú árásarmannanna og voru hinir slösuðu fluttir á sjúkrahús. Ekki hafa verið gefnar upp upplýsingar um líðan fólksins. Tæknideild lögreglu er á staðnum og rannsakar vettvang. Rétt er að geta þess að um er að ræða aðeins fyrstu staðfestu upplýsingar sem komið hafa fram í málinu og því kunna fleiri að hafa slasast.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila