Þurfum að byggja nýjan alþjóðaflugvöll sem er ekki á hættusvæði vegna eldgosa

Það væri rétt að ráðamenn myndu huga að því að þeir innviðir sem eru á Reykjanesskaganum eru innviðir sem skipta allt landið máli og þar má fyrst nefna flugvöllinn á Keflavíkurflugvelli. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Þorvaldur segir að með tilliti til þeirrar hættu sem flugvellinum geti stafað af eldvirkni á Reykjanesskaga væri rétt að huga að því hvort ekki væri rétt að byggja nýjan flugvöll á svæði sem ekki sé undir slíkri hættu, það væri í því mikil skynsemi að mati Þorvaldar.

Mikil upplyfting fyrir það byggðarlag sem alþjóðaflugvöllur yrði byggður á

Þorvaldur bendir á að því myndi einnig fylgja mikil upplyfting fyrir það svæði sem flugvöllurinn yrði byggður á. Ef farið yrði í slíkar framkvæmdir gæti það meira segja orðið grunnur að nýjum þéttbýliskjarna sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Hann segir að slík framkvæmd myndi hafa jákvæð áhrif á landið í heild auk þess að vera mjög mikið öryggisatriði.

Taka verður mið af hættu sem stafar af eldvirkni við skipulagi byggðar og innviða

Þorvaldur segir afar mikilvægt þegar kemur að skipulagi byggðar og innviða að tekið sé tillit til þeirrar hættu sem stafað geta af eldvirkni og jarðhræringum. Hann segir að af þeim atburðum sem nú eigi sér stað á Reykjanesi megi draga einmitt þann lærdóm að hafa slíka hættu alltaf í huga þegar verið sé að skipuleggja svæði. Þegar byggt hafi verið á Reykjanesi hafi menn líklega ekki haft þessi atriði til hliðsjónar. Nú sé mjög mikil þekking til staðar og hana eigi hiklaust að nýta til góðra verka og ráðgjafar.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila