Yfir 2.800 manns hafa slasast og að minnsta kosti átta hafa látist í kjölfar þess að fjöldi símboða sprakk samtímis í Líbanon og Sýrlandi. Talið er að margir hinna særðu séu meðlimir Hezbollah-samtakanna, sem voru að nota símboðana. Sjónarvottar segja að sprengingarnar hafi orðið í kjölfar þess að símboðarnir gáfu frá sér torkennilegt hljóð.
Heilbrigðisráðherra Líbanons greindi frá því að yfir 2.800 manns hefðu slasast og að lágmarki átta hafi látist, en gert er ráð fyrir að þessar tölur muni hækka. Samkvæmt Reuters er sonur Hezbollah-þingmanns meðal þeirra sem hafa látist.
Myndbönd og ljósmyndir á samfélagsmiðlum sýna fólk, mikið til Hezbollah-liða, sem er flutt á sjúkrahús. Hezbollah-liði sagði við Reuters að þetta væri mesti öryggisbrestur samtakanna síðan átök þeirra við Ísrael stigmögnuðust í kjölfar stríðsins á Gasa.
Sjá má myndband af sprengingunum hér að neðan