Þýskar bálstofur óttast orkuskort – Ekki valkostur að setja dauðann á bið

Þýskir verktakar sem reka bálstofur þar í landi óttast á komandi vetri að verða uppiskroppa með jarðgas í þeirri fordæmalausu orkukreppu sem nú gengur yfir Evrópu. Svend Joerk Sobolewski formaður Félags Þýskra bálstofurekenda hefur áhyggjur af því að takmarkanir á jarðgasi frá Rússlandi muni valda því að í vetur verði bálstofurnar óstarfhæfar, en afhending heildarmagns á birgðum á jarðgasi hefur dregist saman um 20%. Hann segir málið afar flókið en ljóst sé að dauðinn verði ekki settur á bið.

Að sögn Sobolewski vinna nú bálstofur að því að setja saman viðbragðsáætlanir til þess að bregðast við gasskorti komi hann upp. Ein milljón Þjóðverja deyja á hverju ári og um 75% þeirra sem deyja eru brenndir. Hlutfall þeirra sem brenndir eru er hæst í Þýskalandi sé fjöldinn borinn saman við önnur lönd Evrópu.

Staðan mjög erfið og góð lausn ekki í sjónmáli

Stephan Neuser framkvæmdastjóri bálstofurekenda segir að nú velti menn fyrir sér hvaða leiðir sé hægt að fara til þess að halda starfseminni gangandi, meðal hugmynda er að setja upp rafmagnsofna í stað gasofna en það er þó afar dýr leið og krefst mikilla breytinga innan hverrar bálstofu.

Önnur leið sem verið hefur til umræðu er að lækka hita þeirra gasofna sem notaðir eru við brennsluna úr 850 gráðum á celsíus niður í 750 gráður. Með lækkun hitans mun þó magn gassins aðeins sparast um 10%, auk þess sem hver bálstofa þyfti að sækja um sérstakt leyfi til þess að lækka hitann og því fylgir gríðarlega pappírsvinna þeirri aðgerð.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila