Þýskur ráðherra fegrar tölur um fjölda innflytjenda

Innanríkisráðherra Þýskalands Nancy Faeser er sökuð um að dreifa fölskum upplýsingum um fjölda innflytjenda frá þriðja heiminum til Þýskalands. Hún gaf upp næstum helmingi lægri tölur en lögreglan gaf upp (mynd © Olaf Kosinsky CC 4.0).

Tölur innanríkisráðuneytisins í engu samræmi við opinberar tölur lögreglu og innflytjendastofnunar

Innanríkisráðherra Þýskalands, sósíaldemókratinn Nancy Faeser, er sökuð um að hafa dreift röngum upplýsingum um fjölda innflytjenda frá þriðja heiminum sem koma til landsins, að því er Remix News greinir frá. Hún heldur því fram að aðeins 57.647 flóttamenn hafi komið inn á þýskt yfirráðasvæði frá áramótum. Á sama tíma hefur þýska ríkislögreglan skráð 101.900 slíka útlendinga síðan í janúar – og það á aðeins fjórum mismunandi stöðum: Berlín, Munchen, Pirna og Stuttgart.

Faeser er einnig sökuð um að hafa svindlað enn meira á tölunum, hvað varðar fjölda hælisumsókna. Þýska innflytjendastofnunin BAMF greinir frá því að 154.557 manns hafi sótt um hæli það sem af er ári. Þessi tala er hins vegar 2,7 sinnum hærri en sú tala sem innanríkisráðuneytið gefur upp.

Þýskaland hefur tekið á móti yfir milljón innflytjendum á þessu ári, þar af um 750.000 frá Úkraínu sem þurfa ekki að sækja um hæli. Á sama tíma heldur straumur innflytjenda frá Afríku og Miðausturlöndum áfram og er vandinn orðinn svo mikill að 12 af 16 ríkjum Þýskalands lýstu því yfir í síðasta mánuði, að þau gætu ekki lengur tekið á móti fleirum.

Segir sínar tölur réttar og lögreglan „margtelji sömu innflytjendur“

Hinn umdeildi innanríkisráðherra, sem er þekktur fyrir að tala fyrir aukinni ritskoðun á pólitískum andstæðingum til hægri, ver þó tölur sínar. Nancy Faeser segir, að ráðuneyti hennar geri aðeins grein fyrir þeim innflytjendum, sem handteknir eru nálægt landamærunum og að alríkislögreglan geti margsinnis talið sama innflytjandann. Hins vegar útskýrir það ekki muninn á hælisumsóknum sem sjást í tölum BAMF, skrifar Remix News.

Heiko Teggatz formaður ríkislögreglusambands Þýskalands, sagði í samtali við dagblaðið Bild, að hærri tölur lögreglunnar „endurspegli nákvæmlega það sem samstarfsmenn mínir hafa sagt mér í marga mánuði.“ Hann telur að koma verði upp landamærastöðvum, því þá muni yfirvöld geta hafnað hælisleitendum „beint við landamærin“ sem hafa áður sótt um hæli í öðru landi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila