Tillögur að fimm virkjunarkostum fimmta áfanga rammaáætlunar settar í samráðsgátt

Tillögur að fimm virkjunarkostum fimmta áfanga rammaáætlunar hafa verið settar í samráðsgátt stjórnvalda.

Um er að ræða virkjunarkostina Bolaöldu, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hamarsvirkjun.

Þetta er seinna umsagnarferlið um tillögu verkefnisstjórnar, sem gert er ráð fyrir að taki 12 vikur. Verkefnisstjórn fól fjórum faghópum sínum að vinna greiningar og leggja mat á áhrif virkjunarkostanna. Þær greiningar liggja nú fyrir og fylgja niðurstöður þeirra sem fylgiskjöl með greinargerðinni.

Þá hefur verkefnisstjórn einnig fengið kynningar á og farið yfir niðurstöður úr vinnu faghópanna og metið í samhengi við greiningar á öðrum þáttum fyrir viðkomandi virkjunarkosti. Á þeim grunni gerir verkefnisstjórn tillögu til ráðherra að röðun þessara virkjunarkosta og eru það einmitt þær tillögur sem liggja til grundvallar í samráðsferlinu.

Við mat á verðmætum svæða sem til greina koma vegna vatnsaflsvirkjana var miðað við sams konar afmörkun og í fyrri áföngum rammaáætlunar, þ.e. vatnasvið ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja en þar fyrir neðan var miðað við meginfarveg og næsta nágrenni neðan hverrar stíflu, 500 m út frá miðlínu. Þessi afmörkun virkjunarsvæða er í samræmi við greinargerð með frumvarpi að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem segir að „virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar.“

Náttúruverðmæti vatnadýra og áhrif á þau voru einnig metin í fiskgengum þverám neðan stíflumannvirkja. Afmörkun víðerna miðar við 5 km radíus utan um framkvæmdasvæði. Menningarminjar voru teknar með ef hluti minjaheildar var innan matssvæðis.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila