Tjónaskráin mun ekki bæta stöðu Úkraínu – Á misskilningi byggt

Pétur Gunnlaugsson ræddi við Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við Háskólann á Akureyri í síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu í dag um Leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík, stríðið í Úkraínu og samkeppni stórveldanna.

Varðandi leiðtogafundi Evrópuráðsins kom fram að ætlunin er að koma á fót tjónaskrá þar sem þeir sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð og síðar bætt. Hilmar taldi málið mikilvægt en sagði ekki augljóst hvernig Evrópuráðið ætlaði að framfylgja þessu. Rússar réðust inní Úkraínu 24. febrúar 2022 og 16. mars 2022 var Rússland svo rekið úr Evrópuráðinu. Evrópuráðið fjallar aðallega um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Hætt er við að brottrekstur bitni hraðast á Rússneskum almenningi sem nú getur ekki leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Fram kom í máli Hilmars að Alþjóðbankinn, Evrópusambandið, og Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í Úkraínu meta stöðugt tjónið sem orðið hefur í Úkraínu og ólíkt Evrópuráðinu hafa þessar stofnanir tæki til að halda utan um framkvæmdir þegar til uppbyggingar kemur. Samkvæmt skýrslu sem þessar stofnanir gáfu út í Mars 2023 mun enduruppbygging vegna þess tjóns sem varð í Úkraínu frá 24. mars 2022 til 24. mars 2023 kosta ca. kr. 57.450 milljarða (US $411 billion/equivalent of €383 billion) og taka um ártug.

Að mati Hilmars er grundvallaratriði varðandi Úkraínustríðið að vesturlönd neita alfarið að taka tillit til þeirrar sérstöðu sem Úkraína hefur gagnvart Rússlandi vegna nálægðar og svo sögulega. Lönd eins og Úkraína sem er með landamæri við mun stærra land, sem þar að auki er kjarnorkuveldi þarf að fara varlega í utanríkismálum alveg á svipaðan hátt og Kanada þarf að taka visst tillit til Bandaríkjanna. Kanada myndi t.d. ekki sækjast eftir aðild að BRICS hópnum undir forystu Kína. Kanada myndi aldrei ganga í varnarbandalag með Kína eða Rússlandi. Kanada myndi aldrei bjóða Kína eða Rússlandi að vera með herstöð á sinni grund.

Stjórnvöld í Kanada vita þetta vel og gera ekkert sem veldur miklum usla í Washington. Kanada leggur fyrst og fremst áherslu á að hagnast á viðskiptum við Bandaríkin. Það fara hvergi fram eins mikil viðskipti milli tveggja landa í heiminum eins og á milli Kanada og Bandaríkjanna. Sem hlutlaust land hefði Úkraína haft töluverða möguleika vegna staðsetningar sinnar sem tenging til austurs við ESB og Evrópu. Úkraína var ríkara land en Pólland þegar Sovétríkin féllu 1991 en árið 2022 þegar Rússland gerði innrás í Úkraínu var verg landsframleiðsla á mann þar aðeins þriðjungur vergrar landsframleiðslu Póllands. Stjórnvöldum í Úkraínu tókst því aldrei að ná almennilegum tökum á sínum málum eftir fall Sovétríkjanna þannig að skilyrði sköpuðust til hagvaxtar á svipaðan hátt og gerðist í Póllandi. Samt er Úkraína auðlindaríkara land en Pólland, mun betur fallin til landbúðar, var með betur þróaðan iðnað þegar Sovétríkin féllu og opinberar skuldir Úkraínu voru mun lægri en Póllands.

Bjarnargreiði vesturlanda að vekja falsvonir Úkraínu um aðild að ESB og NATO

Árás Rússlands inn í Úkraínu ber að mati Hilmars að fordæma en vesturlönd gerðu Úkraínu engan greiða að vekja falsvonir um fulla aðild að ESB og NATO í náinni framtíð. Í framhaldinu hefur Rússland lagt upp í þá vegferð að eyðileggja Úkraínu. Úkraína lét af hendi kjarnorkuvopn sín til Rússlands að ráði Vesturlanda 1994 með svokölluðu Budapest Memorandum. Úkraína er nú vígvöllur það sem Rússland veikist en Úkraína eyðileggst.

Sum ESB lönd hafa hagsmuni af því að stríðið haldi áfram, með því verða minni líkur að ráðist verði á þau í framtíðinni. Þau vilja frekar að þetta stríð fari fram í Úkraínu en innan landamæra þeirra sjálfra.

Í samtali Péturs við Hilmar kom líka eftirfarandi fram:.

Áfram barist í Úkraínu en frekar litlar breytingar á víglínunni sem er um það bil 1000 kílómetra löng. Þreyta komin á báða aðila sem getur endað með að stríðið deyi út smátt og smátt. Þetta gæti hugsanlega endað svipað og Norður- og Suður-Kórea þar sem tæknilega er stríð en engin meiriháttar átök árum saman, það sem á ensku er kallað „frozen conflict.“

Engin lausn í sjónmáli

Það er engin lausn í sjónmáli varðandi landsvæði, sem Rússland hefur innlimað, né um stöðu Úkraínu sem ríkis að stríði loknu, hvort Úkraína verður hlutlaus eða ESB/NATO ríki til lengri tíma litið. Annað vandamál er fjármögnun á uppbyggingu að stríði loknu.

Rússar ráða yfir svæðum í austur Úkraínu og svo suður með landbrú til Krímskagans sem þeir tóku 2014. Rússar ráða yfir efnahagslögsögu Krím og austur hluta Úkraínu þar sem miklar gas og olíuauðlindir eru. Rússnesk stjórnvöld munu tæpast gefa þetta eftir.

Sá hluti sem stjórnvöld í Kiev munu ráða yfir að stríði loknu þarf að tryggja öryggishagsmuni sína að stríði loknu sennilega í samvinnu við vesturlönd. Þetta getur leitt til þess sem að landið klofni formlega í tvennt: þann hluta sem stjórnvöld í Kiev ráða yfir og þann hluta sem Rússland hefur innlimað og verður hluti af Rússlandi. Við slíkar aðstæður væri viðvarandi spenna milli Rússlands og Úkraínu og þó samningar takist um vopnahlé geta átök alltaf blossað upp aftur og aftur.

Rússar staðsetja nú kjarnorkuvopn í Hvíta Rússlandi sem er skýrt skilaboð til vesturlanda þar á meðal til Póllands.

Kína og Indland græða á átökunum með ódýru gasi og olíu frá Rússlandi. Bandaríkin eru tilneydd að vera í góðu sambandi við Indland þrátt fyrir þetta vegna Kína. Bandaríkin geta ekki verið í stríði við Rússland og á sama tíma í hörðum deilum við bæði Indland og Kína.

Mótsagnakenndar staðhæfingar um ógnina af Rússlandi

Mótsagnakenndar staðhæfingar eru um þá ógn sem stafar af Rússlandi. Annarsvegar sagt að Rússar muni tapa stríðinu í Úkraínu og her Rússa sé ónýtur. Hinsvegar sagt að allri Evrópu standi ógn af þessum her og þurfi að vígvæðast sem aldrei fyrr. Vopnakaup 2022 náðu nýjum hæðum sem aldrei hafa sést áður. Baráttan gegn loftlagsbreytingum og fátækt í heiminum fær lægir forgang.

Átökin hafa ýtt Kína og Rússlandi saman gegn vesturlöndum og sameinað BRICS hópinn sem er að stækka, sjá töflu hér að neðan. Í BRICS löndunum búa yfir 3 milljarðar manna en tæplega 800 milljónir í G7 löndunum. Á jafnvirðisgengi eru hagkerfi BRICS landanna stærri en G7. Þetta leiðir til samkeppni og spennu milli þessara hópa með vaxandi líkum á hernaðar átökum í austur Asíu.

Visst hik er nú á aðstoð Vesturlanda við Úkraínu hernaðarlega. Nýir skriðdrekar og önnur vopn eins og lagdrægar eldflaugar berast hægt og gamlar MiG-29 orrustuþotur frá Sovét tímanum berast t.d. frá Póllandi og Slóvakíu. F-16 orrustuþotur frá Bandríkjunum eru ekki sendar til Úkraínu hvað þá nýrri og fullkomnari F-35 þotur sem t.d. Danmörk, Finnland og Noregur kaupa nú enda væri slíkt hættuleg stigmögnun.

Varðandi stríðið í Úkraínu óttast Vesturlönd/Bandaríkin/NATO að:

  1. Stríðið breiðist út t.d. að Hvíta Rússland blandist í átökin í Úkraínu eða jafnvel Pólland (vopnaaðstoð Vesturlanda kemur að mestu yfir landamæri Póllands).
  2. Kína dragist smátt og smátt inn í stríðið (ef Rússlandi gengur illa aukast líkurnar).
  3. Ef Rússland tapar stríðinu alveg verði upplausn sem er hættuleg þegar um kjarnorkuveldi er að ræða (stærsta kjarnorkuveldið á eftir Bandaríkjunum).

Að stríði loknu sem til lengri tíma litið gæti endað með samningum þar sem hvorugur aðilinn fær allt sem hann vill verður ESB ekki í góðri stöðu að veita Úkraínu víðtæka efnahagsaðstoð. Stærstu aðildaríki ESB orðin skuldsett (sérstaklega Ítalía og Frakkland) og Þýska hagkerfið veikt. Þau lönd sem nú eru að sækja um ESB aðild eru öll fátæk og þurfa líka mikla aðstoð. Bandaríkin hafa ekki verið þekkt fyrir að byggja upp innviði í öðrum löndum og mikil pólitísk óvissa er í Bandaríkjunum vegna forsetakosninga á næst ári.

Að stríði loknu verður svo áfram samkeppni milli Bandaríkjanna sem leiða NATO og G7 annarsvegar og Kína sem leiðir BRICS hópinn er að stækka og eflast. Líkur á átökum Bandaríkjanna og Kína vegna Taívan aukast. Tíminn vinnur með Kína.

Þeir sem græða á þessu stríði eru Kína og Indland kaupa ódýra olíu og gas frá Rússlandi og Bandaríkin eru minna ráðandi í Asíu vegna þess að Úkraínustríðið tekur tíma og orku frá Washington.

Þeir sem tapa á þessu stríðu eru: Úkraína, Rússland, ESB og svo þróunarlönd sem verða illa úti vegna verðhækkana í heiminum. Mörg fátækari Asíulönd, Afríku og Suður Ameríkulönd vilja binda enda á stríðið strax og er nánast sama hvor vinnur, Rússland eða Úkraína.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Deila