Tókum upp sænsku aðalnámsskrána en skildum innihaldið allt eftir

Eitt af þeim vandamálum sem skólakerfið glímir við er aðalnámsskráin sem er fengin frá Svíþjóð. Vandinn er að hér á landi var innihald námsskrárinnar ekki haft með í henni og var það þó lítið fyrir. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóns Péturs Zimsen í Menntaþættinum en hann var gestur Valgerðar Jónsdóttur.

Jón Pétur segir að það sem hann eigi við, að innihaldið hafi allt verið skilið eftir, sé að engin þekkingaratriði hafi verið í námsskránni því orðið þekking hafi verið orðið bannorð í námsskránni. Námsskráin sé ætluð til þess að útlista hvað skuli kennt í skólum en þarna hafi nánast ekkert verið eftir og námsskráin því algerlega opin til túlkunar fyrir hvern sem er.

Stjórnlaust fyrirkomulag á Íslandi

Þá hafi ekkert komið í staðinn og menn hafi því kennt það sem þeir vildu kenna og til að bíta höfuðið af skömminni var ekkert eftirlit haft með því sem verið væri að kenna. Áður hafði fyrirkomulagið verið mjög skýrt um hvað ætti að kenna en það hafi breyst eftir árið 1999. Nú sé þetta allt opið og hver kennari og skóli getur túlkað eftir hentugleika. Svíarnir hafi hins vegar séð strax þó þeir væru með töluvert meira innihald en við að þetta gengi ekki og fóru í endurskoðun strax. Þeir bættu við meira innihaldi og í raun grunnstýringunni á því sem skólar áttu að gera. Það hafi verið gert svo hægt væri að bera pólitíska ábyrgð á því að nemendurnir væru bara ekki algerlega úti á túni eða að jafnræðis væri ekki gætt.

Svíarnir hafi strax farið í að lagfæra hlutina en það hafi hins vegar ekki verið gert hér á landi en þó megi nefna að námsskráin er nú til endurskoðunar. Það hafi hins vegar ekki verið brugðist við nægilega skjótt því námsskráin kom út 2013 og núna hafa liðið heil tíu ár.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila