Trans Ísland hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2023

Samtökin Trans Ísland hlutu í dag mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Ólöfu Bjarka Antons formanni samtakanna Trans Ísland verðlaunin en samtökin hafa barist fyrir réttindum trans fólks á Íslandi.

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.

Verðlaunin voru veitt í Höfða í dag 19. maí, en mannréttindadagur Reykjavíkurborgar er 16. maí og er markmið dagsins að vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar. Það var mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð sem samþykkti á fundi sínum þann 15. maí s.l. að Trans Ísland hlyti verðlaunin. Handhafi verðlaunanna hlýtur að launum kr. 600.000,-.

Í rökstuðningi valnefndar segir að Trans Ísland hafi frá árinu 2007 barist fyrir réttindum trans fólks. Félagið hafi með starfi sínu valdið grundvallarbreytingu á skilningi fólks á kynjajafnrétti.

„Í gegnum árin hefur félagið staðið fyrir umfangsmikilli fræðslu til almennings um málefni trans fólks og unnið faglega með stjórnvöldum til að tryggja kynrænt sjálfræði og treysta réttindi allra kynja. Trans Ísland vinnur náið með almannaheillasamtökum hér á landi og erlendis gegn vaxandi hatri í garð trans fólks sem og alls hinsegin fólks.“ segir í rökstuðningi valnefndarinnar

Dagur sagði við afhendingu verðlaunanna að það væri afar mikilvægt að við öll fáum notið mannréttinda. Borgin vinni stöðugt að því að styrkja og standa vörð um þá hópa sem eru berskjaldaðir í samfélaginu, og vill tryggja að öll fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á, og halda ávallt mannréttindum á lofti.

Deila