Trump og Zelensky funduðu í Trump Tower

Íris Erlingsdóttir skrifar frá Bandaríkjunum

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Zelensky forseti Úkraínu hittust á fundi í Trump Tower s.l. föstudag eftir að Zelensky sendi Trump bréf og óskaði eftir fundi með forsetanum fyrrverandi. „Eins og þið vitið hefur Zelensky forseti beðið um fund með mér og ég mun hitta hann á morgun klukkan 9:45 í Trump Tower,“ sagði Trump á blaðamannafundi í New York. “Það sem er að gerast í Úkraínu er synd, svo mörg dauðsföll, svo mikil eyðilegging. Þetta er hræðilegt mál,“ sagði Trump. 

NBC News sagði að Trump og Zelensky myndu ekki hittast

Zelensky fundaði líka með pólitískum keppinaut Trumps, Kamölu Harris varaforseta og Joe Biden Bandaríkjaforseta. Fyrr í vikunni var óvissa um hvort Trump og Zelensky myndu funda; Zelensky hafði sagt að hann myndi líklegast hitta forsetann fyrrverandi í ferð sinni til Bandaríkjanna en samkvæmt fréttum NBC News hafði Trump ákveðið að eiga ekki fund með Zelensky.

Trump sagði að Zelensky vildi ekki binda enda á stríðið

Trump gagnrýndi Zelensky opinberlega á miðvikudaginn og sakaði hann um „litlar kvikindislegar rangfærslur í minn garð, uppáhaldsforsetans ykkar.” Hann sagði einnig að forseti Úkraínu væri „maður sem neitar að semja“ um að binda enda á stríðið við Rússland.

Trump og Zelensky hafa ekki hist síðan Trump var ákærður vegna ásakana um að hafa haldið eftir hundruðum milljóna dala í hernaðaraðstoð til Úkraínu til þess að þrýsta á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka Joe Biden og son hans Hunter Biden. 

Í símtali milli Zelensky og Trump í júlí sl. – þeirra fyrsta í fimm ár – sagðist forsetinn fyrrverandi „styðja Úkraínu heils hugar” og hann myndi gera „allt til að efla“ landið verði hann kjörinn forseti.

Zelensky flogið með herþotu til Pennsylvaníu í boði Biden og Harris

Zelensky er staddur í Bandaríkjunum vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Fyrr í vikunni, áður en hann fundaði með Biden og Harris í Hvíta húsinu, var honum flogið í herþotu til Pennsylvaníu í boði Biden-Harris stjórnarinnar og hann heimsótti skotfæraverksmiðju í heimabæ Bidens. Hann hitti einnig ríkisstjóra Pennsylvaníu, Josh Shapiro og embættismenn úr flokki Demókrata. 

Rannsókn hafin á hvort Biden-Harris stjórnin hafi misnotað fjármuni til að fljúga Zelensky

Ferðin leiddi til þess að Repúblikanar í eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa látið hefja rannsókn á því hvort Biden-stjórnin hafi misnotað fjármuni skattgreiðenda til að fljúga Zelensky til Pennsylvaníu í þágu forsetaframboðs Harris. Í bréfi nefndarformannsins James Comer til æðstu embættismanna Biden-stjórnarinnar, bendir hann á að Demókratar sökuðu Trump um að hafa notað Zelensky í þágu kosningabaráttu Trumps árið 2019 „þó engin gögn hefðu bent til þess. Nú lætur Biden-Harris-stjórnin fljúga sama erlenda leiðtoganum til Pennsylvaníu – stærsta sveifluríkis í forsetakosningunum, sem Kamala Harris verður að vinna – á kostnað bandarískra skattgreiðenda,” skrifaði Comer. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila