„Trúverðugleiki embættis ríkislögreglustjóra enginn með Sigríði Björk í stafni„

Þegar upplýsingar komu fram í dómsmáli um ólögmæta vopnasölu Guðjóns Valdimarssonar föður ríkislögreglustjóra hefði lögregla átt að hefja frumkvæðisrannsókn á þeim þætti dómsmálsins og setja Guðjón í stöðu sakbornings. Þetta er haft eftir verjanda mannsins úr dómsmálinu en skjólstæðingur hans benti á að ólöglegt skotvopn sem dómsmálið snerist um hefði komið frá Guðjóni. Verjandi mannsins segir óskiljanlegt hvers vegna ekki var hafin rannsókn gagnvart vopnasölu Guðjóns.  Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður segir í frétt Stöðvar 2 í kvöld að hann taki undir gagnrýni verjanda mannsins. Vilhjálmur segir að þegar lögregla fái vitneskju um refsiverða háttsemi beri henni þegar í stað að hefja rannsókn á hinni meintu refsiverðu háttsemi.

„það er augljóst á þessum dómi Landsréttar og héraðsdómnum að upplýsingar um meinta refsiverða háttsemi föður ríkislögreglustjóra komu fram við skýrslutöku yfir manninum 10.júlí  2018 og þá þegar átti að hefja rannsókn á þeim þætti málsins, að það væri maður að reka vopnasöluvef sem væri að selja hríðskotabyssur á Íslandi, það var hins vegar ekki gert og það er heldur ekki að sjá að athygli annara stofnana svo sem ríkissaksóknara, héraðssaksóknara eða ríkislögreglustjóra hafi verið vakin á þessu máli og þessu meinta hegningarlagabroti“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur hefur áhyggjur af trúverðugleika embættis ríkislögreglustjóra vegna málsins.

„Hún Sigríður Björk hlýtur að liggja undir feldi núna og vera að íhuga stöðu sína því trúverðugleiki embættisins með hana í stafni er enginn“

Þá er er hægt að velta fyrir sér hvaða áhrif málið hefur á ímynd Íslenskra löggæsluyfirvalda erlendis því eins og Útvarp Saga greindi frá í gærkvöld hefur málið nú þegar vakið athygli sænskra fjölmiðla sem greina frá að Guðjón Valdimarsson sé sakaður um sölu ólögregla vopna á netinu. Ekki hafa fengist neinar upplýsingar um stöðu Guðjóns í hryðjuverkamálinu svokallaða þar sem tveir ungir menn voru grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk, en lögregla framkvæmdi meðal annars húsleit hjá Guðjóni í tengslum við rannsóknina á hryðjuverkamálinu þar sem nafn Guðjóns kom fram í yfirheyrslum yfir öðrum mannanna.

Þá hefur Útvarp Saga heimildir fyrir því að nafn Guðjóns hafi áður komið fram í tilkynningum fólks til lögreglu vegna vopnasölu og innflutnings á vopnum en lítið sem ekkert virðist hafa verið aðhafst í þeim málum

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila