Tvöþúsund hælisleitendur dvelja í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar

Tæplega 2.000 umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar en stofnunin þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi. Þegar stofnunin tók við þjónustunni frá Útlendingastofnun um mitt síðasta ár voru um 700 umsækjendur búsettir í húsnæði ætluðu umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Í tilkynningu vegna málsins segir að aldrei hafi jafnmargir sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en um þessar mundir. Það sem af er ári séu umsækjendur orðnir fleiri en á sama tíma í fyrra eða um 2.000 talsins. Að jafnaði hafa um 100 einstaklingar á viku sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því í janúar síðastliðinn.

Í tölfræðigögnum sem nálgast má með því að smella hér sést meðal annars að frá áramótum hafa ríflega tvisvar sinnum fleiri sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en allt árið 2021. Flest fólkið kemur frá Venesúela og Úkraínu en fjöldi ríkisfanga er 49. Börn eru 20% hópsins.

Flóttafólk sem leitað hefur skjóls á Íslandi frá Úkraínu eftir innrás Rússlands þar í landi hefur fengið dvalarleyfi hérlendis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með nýlegum breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga má fólk með slíkt dvalarleyfi nú strax hefja störf hér á landi, en fyrir lagabreytinguna þurfti viðkomandi að fá veitt atvinnuleyfi til að geta hafið störf á innlendum vinnumarkaði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila