Um 15 milljón rúmmetrar af hrauni runnu fyrstu sjö klukkutímana

Veðurstofa Íslands segir að dregið hafi verulega úr gosóróa síðan í gær við Sundhnúka en það byrjaði að draga úr honum upp úr hádegi í gær þegar virkni á gossprungunni minnkaði einnig. Tímabundnar hækkanir sáust á gosóróa í gærkvöldi en samhliða því jókst virkni í gígunum.

Í nótt dró enn frekar úr virkni gossins en milli kl. 7 og 8 í morgun voru tvo gosop virk. Undanfarnar klukkustundir hefur ekki sést kvikustrókavirkni á vefmyndavélum en ekki er útilokað að enn sé virkni í gígunum.

Bylgjuvíxlmynd frá kl. 14:56 í gær sýnir að land í Svartsengi, NV við Þorbjörn, seig mest um 10 cm þegar kvika hljóp þaðan í Sundhnúksgígaröðina. Líkanreikningar byggðir á þessum gögnum sýna að þetta samsvarar því að um 10 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus í Sundhnúksgígjaröðina.   

Undanfarin sólarhring hefur verið minniháttar skjálftavirkni á gossvæðinu. Um 40 skjálftar hafa mælst þar, allir um eða undir 1,0 að stærð.

Mat á rúmmáli hraunsins sem rann frá því gos hófst, klukkan 6:02 þangað til 13:00 í gær (8. febrúar) er um 15 milljón rúmmetrar sem þýðir að meðal kvikuflæði fyrstu sjö klukkutímana í gosinu var um 600 rúmmetrar á sekúndu.

Þótt gosið hafi minnkað verulega er enn of snemmt að fullyrða að því sé að ljúka. Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila