Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið í samstarfi við heilbrigðistæknifyrirtækið Össur að veita framlag að upphæð 65 þúsund evra, um 10 milljónum króna, til fjármögnunar á stoðtækjalausnum fyrir tuttugu einstaklinga sem eru í umönnun hjá endurhæfingarspítalanum í Dnipro í austurhluta Úkraínu.
Í tilkynningu segir að brýn þörf sé á fleiri stoðtækjum vegna þeirra umfangsmiklu meiðsla, bæði á úkraínskum hermönnum og óbreyttum borgurum, sem innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur leitt af sér. Stoðtækin eru ætluð þeim sem hafa misst útlimi bæði fyrir neðan og ofan hné. Fyrr á árinu barst ósk frá úkraínskum stjórnvöldum um aðstoð íslenskra stjórnvalda og Össurar við að fjármagna kaup á stoðtækjum til endurhæfingarspítalans í Dnipro.
„Stuðningur Íslands við varnarbaráttu Úkraínu er margþættur. Tugþúsundir óbreyttra borgara og hermanna hafa hlotið varanlegt örkuml og misst útlimi í ömurlegu árásarstríði Rússa í Úkraínu. Við búum að því að hér á Íslandi starfar eitt fremsta fyrirtæki heims á sviði stoðtækja og með þessu samstarfi tökum við höndum saman við að leggja okkar af mörkum til að lina þjáningar þessa fólks og gefa því von um betra líf,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ráðgert er að sérfræðingar sem hlotið hafa þjálfun hjá Össuri og eru starfandi á endurhæfingarspítalanum í Dnipro muni veita klíníska þjónustu. Össur mun jafnframt veita ráðgjöf og aðstoð á meðan á verkefninu stendur. Um tilraunaverkefni er að ræða sem fer fram nærri vígstöðvunum og ef vel tekst til má áætla að möguleikar séu á umfangsmeira samstarfi síðar meir.
„Össur er í einstakri stöðu til að veita mannúðaraðstoð í formi stoðtækja til fórnarlamba stríðsins í Úkraínu og það höfum gert með ýmsum hætti síðastliðin ár. Samvinnan við utanríkisráðuneytið eflir okkur enn frekar til dáða í þessu mikilvæga verkefni,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar.
Össur hefur sem kunnugt er áður hlotið styrk frá ráðuneytinu til verkefna í Úkraínu en sumarið 2022 hlaut fyrirtækið 200 þúsund evra styrk úr heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til þess að vinna með úkraínskum sérfræðingum við að útvega stoðtæki til þeirra fjölmörgu sem hafa misst útlimi í stríðsátökunum. Verkefnið mætti brýnni þörf og sýndi góðan árangur sem endurspeglar áhuga úkraínskra stjórnvalda á áframhaldandi samstarfi.