Vandamál leikskólanna er að Samfylkingin gefur loforð sem hún getur ekki efnt

Stærsta vandamál leikskólanna í Reykjavík er það að Samfylkingin hefur ítrekað gefið loforð fyrir því að öll börn sem þurfi leikskólapláss fái leikskólapláss, það sé loforð sem ekki sé hægt að efna, að minnsta kosti ekki eins og stjórnarhættir í borginni eru núna. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Helga Áss Grétarssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Helgi segir að meðal þess sem þurfi að gera til þess að hægt sé að efna þau loforð sem gefin eru um leikskólapláss þá þurfi að gera starfið aðlaðandi bæði hvað varðar launaþáttinn og starfsaðstæður snertir. Vissulega séu aðstæður á sumum stöðum góðar en á öðrum ekki og á þeim stöðum þar sem þarf að stækka og bæta aðstöðu starfsmanna kemur það niður á stærð þess rýmis sem upphaflega hafi verið ætlað börnunum. Því fækki óumflýjanlega þeim leikskólaplássum í þeim leikskólum þar sem slíkar breytingar eru gerðar.

„en þá er annað sem kemur til og það er að samkvæmt reglum þá þarf hvert barn að hafa meira pláss en áður var og það er líka hluti þess að bæta aðstæður og þá fyrir börnin en af því leiðir líka óhjákvæmilega að það sé ekki hægt að taka á móti eins mörgum börnum“segir Helgi.

Hann segir að það gefi því auga leið að byggja þurfi því nýjar byggingar.

Hann segir að sjálfstæðismenn vilji nálgast þetta með öðrum og fjölbreyttari hætti í stað þess að hafa eingöngu miðstýrða leikskóla í boði fyrir börn og foreldra. Hann bendir á að frá árinu 2015 hafi dagforeldrum fækkað úr meiri en helming eða úr 203 niður í 98. Hann segir ástæðuna fyrir fækkun dagforeldra vera þá stefnu borgarinnar að hækka ekki framlög til þessa dagforeldrakerfis.

„að reyna með því að halda áfram að fjölga leikskólabyggingum og fleira og draga þannig úr því að foreldrar í Reykjavík velji að senda börn sín til dagforeldra“

Hann segir dæmi um afstöðu vinstri meirihlutans til dagforeldrakerfisins megi sjá með því að tillögum þverpólitískrar nefndar sem miðuðu að því að gera dagforeldrakerfið að raunverulegum valkosti fyrir foreldra hafi strax verið stungið undir stól og aðeins örfá atkvæði framkvæmd.

„en hvað var það sem að meirihlutinn núna lofaði þegar hústökuleikskólinn var í ráðhúsinu og aðgerðir kynntar, jú það var að efla dagforeldrakerfið, svo hafa komið kynningar og svo framvegis en það er bara ekkert gert“segir Helgi.

Deila