Vandi að fá leiðtoga ESB og NATO til að fallast á friðarviðræður Rússlands og Úkraínu

Það er ákveðinn vandi að fá leiðtoga Evrópusambandsins og NATO til að fallast á friðarviðræður Rússlands og Úkraínu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Birgis Þórarinssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og nýkjörins formanns öryggis og stjórnmálanefndar ÖSE í þætti Arrnþúðar Karlsdóttur.

Birgir segir að þegar kemur að þessum vanda þá sé það mjög gott að það séu 57 ríki sem eiga aðild að ÖSE þinginu og þar hafi NATO, Evrópusambandið og Evrópuráðið áheyrnarrétt. Allir þessir aðilar séu vel meðvitaðir um hvað fram fer á ÖSE þinginu og í nefndum þess og því hafi það mjög mikil áhrif ef ÖSE þingið leggur mikla áherlsu á að fá Rússa og Úkraínumenn að samningarborðinu til þess að semja um frið en þessi sterka staða með þennan fjölda landa innanborðs auðveldar að fá stofnanir eins og NATO og ESB til þess að samþykkja friðarumleitanir.

Vantar friðarviljann

Arnþrúður benti á að það virtist vanta talsvert á viljann til þess að koma á friði og nefndi í því sambandi friðarráðstefnuna í Sviss þar sem áherslan var meiri á hvernig menn ættu að verjast í stað þess að leggja áherslu á frið. Birgir segir það séu viss ríki sem telja stöðuna vera þannig að það komi ekki til greina að setjast að friðarborði og Úkraína hafi sagt að friðarviðræður komi ekki til greina fyrr en Rússar skili þeim svæðum sem Rússar nú þegar hafi tekið.

Mikilvægt að halda samskiptaleiðum opnum

Birgir segir að kjarninn sé sá að það sé mjög mikilvægt að samskiptaleiðum milli deiluaðila verði haldið opnum og hann sé talsmaður þess að mikilvægt sé að halda opnum samskiptaleiðum við Rússa.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila