
Jarðasala til erlendra auðmanna er varasöm því jöðrum geta fylgt ýmsar auðlindir svo sem vatnsauðlindir og með slíkum jarðasölum er verið að hafa áhrif á eignarhald á vatnsauðlindum landsins. Þetta segir Halla Hrund Logadóttir frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og orkumálastjóri en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Hreinar og ómengaðar vatnsauðlindir
Ísland er í þeirri einstöku stöðu að hafa hreinar og ómengaðar vatnsauðlindir sem eru meðal þeirra bestu í heiminum. Halla hefur bent á að flestir Íslendingar taki vatn úr krönum sem sjálfsögðum hlut en að vatnið sem við neytum sé ómeðhöndlað og einstakt á heimsvísu. Hún varar við því að erlendir aðilar eignist vatnsréttindi með kaupum á jörðum og geti þannig nýtt sér þessa verðmætu auðlind án þess að arðurinn renni til íslenskra samfélaga.
Þarf að koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar eignist mikilvægar auðlindir landsins
Halla Hrund hefur einnig bent á að vatnsnotkun muni vaxa á heimsvísu á komandi árum vegna loftslagsbreytinga og vaxandi þurrka í mörgum heimshlutum. Þetta þýðir að eftirspurn eftir hreinu vatni mun aukast og mikilvægi vatnsauðlinda Íslands mun því verða meira í framtíðinni. Því sé nauðsynlegt að tryggja að vatnsréttindi haldist í innlendum höndum og að stjórnvöld komi í veg fyrir að erlendir fjárfestar eignist mikilvægar auðlindir landsins í gegnum jarðakaup.
Þarf að setja búsetukröfu á þá sem vilja kaupa jarðir á Íslandi
Halla Hrund leggur áherslu á að setja þurfi skýrari reglur um jarðakaup erlendra aðila og að ein leið til að bregðast við vandanum sé að innleiða búsetukröfu á þá sem vilja kaupa jarðir á Íslandi. Hún telur að með því að setja slík skilyrði í lög megi tryggja að auðlindir landsins verði ekki teknar úr landi og að eignarhaldið verði áfram í höndum þeirra sem búa hér.
Erlendir fjárfestar keppa við innlenda bændur um kaup á jörðum
Hún bendir á að að erlendir fjárfestar keppi nú við innlenda bændur um kaup á jörðum, sem gerir það erfitt fyrir unga bændur að komast inn á markaðinn. Með hækkandi fasteignaverði og aukinni eftirspurn eftir jörðum vegna annarra fjárfestingartækifæra óttast hún að ungt fólk sem vill hefja búskap eigi sífellt erfiðara með að kaupa jarðir til landbúnaðar. Hún leggur til að stjórnvöld komi á reglum sem styðji við nýliða í landbúnaði og verndi jarðir til landbúnaðarframleiðslu.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan
