Óskilvirni í skipulagsmálum og þéttingarstefnan er eitt af því sem hefur skapað þann mikla húsnæðisvanda sem nú ríkir í borginni. Ef þessi stefna núverandi meirihluta borgarinnar heldur áfram verða stöðugt fleiri húsnæðislausir. Þetta segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Í stað þess að byggja úthverfi með einbýlishúsum eða blandaðri fjölskyldubúsetu, hefur áherslan verið á að þétta byggðina á núverandi svæðum. Þetta hefur leitt til þess að fleiri íbúðir eru byggðar á minna svæði, sem veldur auknum þrýstingi á innviði borgarinnar, ekki síst í samgöngumálum. Þessi stefna, sem Vilhjálmur gagnrýnir harðlega, hefur leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir þá sem reyna að kaupa húsnæði í borginni.
Skipulagsmálin og lóðaskortur núverandi meirihluta borgarinnar hefur haft skaðleg áhrif
Þá sé lóðarskortur eitt stærsta vandamálið sem kemur í veg fyrir að fleiri húsnæði verði byggt, og það hefur hækkað fasteignaverð gríðarlega. Vilhjálmur bendir á að lóðir séu seldar á uppboði, sem leiðir til þess að aðeins þeir sem eru best efnum búnir geti keypt þær. Þetta hefur í för með sér að fasteignaverð, sérstaklega í miðborg Reykjavíkur, hefur margfaldast. Hann nefnir dæmi um tveggja herbergja íbúðir sem kosta yfir 100 milljónir króna, verð sem flestir venjulegir borgarar hafa ekki efni á. Þannig hefur fasteignamarkaðurinn orðið meira aðgengilegur fyrir erlenda fjárfesta og þá sem eru mjög fjárhagslega vel staddir, á meðan venjulegt fólk á erfitt með að kaupa sitt eigið húsnæði.
Stefna borgarinnar núna leiðir til þess að fleiri verða útilokaði frá því að eignast heimili
Vilhjálmur varar við því að ef ekkert verði gert til að breyta núverandi stefnu, muni vandamálið einungis stækka. Hann hvetur til þess að borgaryfirvöld taki til endurskoðunar alla stefnu sína í skipulagsmálum og leysi vanda lóðarskortsins, svo hægt sé að koma til móts við þarfir bæði þeirra sem vilja kaupa einbýlishús og fjölskylduvænt húsnæði, en líka þeirra sem vilja fjölbýlishús. Að öðrum kosti sé hætta á því að húsnæðismarkaðurinn haldi áfram að vera of dýr og að fleiri verði útilokaðir frá því að eignast sitt eigið heimili.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan