
Það blasir við að vaxtahækkanir Seðlabankans valda heimilunum gríðarlegum skaða og framhjá því verður ekki litið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins í þætti Hauks Haukssonar í gær.
Ásthildur bendir á að vaxtahækkanirnar bitni verst á þeim sem minnst hafa á milli handanna sem og fólki sem búi í leiguhúsnæði því leiga sé næstum alltaf verðtryggð.
Hún segir verðtrygginguna vera helstu rótina af öllu illu á Íslandi.
„við verðum að losna við hana og þá fyrst er hægt að byggja upp raunverulegan lánamarkað en eins og staðan er núna líta margir á verðtrygginguna sem einhverja lausn og það er verið að ýta fólki út í að taka verðtryggð lán. Það er lausn þegar þú horfir á lán sem þú varst að borga kannski 500 þúsund fyrir og ert í staðinn að borga 230 þúsund en þetta er ákveðin gildra og það er verið að ýta fólki í þessa gildru í þúsunda tali og ég get bara ekki ímyndað mér ljótari hlut“segir Ásthildur.
Hún segir að háir vextir brengli myndina fyrir fólki og þegar vextir fari lækkandi fari afborganir af óverðtryggðum lánum að fara lækkandi en það muni hins vegar ekki gerast með verðtryggðu lánin. Þannig muni þeir sem hafa tekið verðtryggð lán standa frammi fyrir miklum vanda eftir 5 – 6 ár og lánin þeirra verða búin að hækka gríðarlega og geta ekki skipt yfir í óverðtryggð lán eins og lögin eru í dag. Þetta geti svo valdið því að fólk lendi í vanskilum með skelfilegum afleiðingum. Ef ekkert er að gert er fyrirséð að fjöldi fólks muni missa heimili sín.
Hrunið hefur ekki verið gert upp
Í þættinum ræddi Ásthildur einnig um þá sem misstu heimili sín í hruninu og segir Ásthildur að enn hafi hrunið ekki verið gert upp. Til þess að hægt sé að tala um að hrunið hafi verið gert upp þarf að rannsaka aðkomu stjórnvalda að hruninu en það hafi ekki verið gert. Skoða þarf hlut bankanna, innheimtufyrirtækja, sýslumanna og dómara að hennar mati.
„það þarf að gera rannsóknarskýrslu um hvernig farið var gegn heimilunum en það er nákvæmlega enginn pólitískur vilji á þinginu til þess að gera slíka skýrslu því þá myndi ansi margt koma fram sem ekki þolir dagsins ljós. Það þarf að fara í þetta og kanna hvernig staðið var að málum því það var brotið gagnvart fólki og það er ekki nokkur spurning“ segir Ásthildur.
Hún segir að bankarnir ættu ekki að verða einkavæddir því bankarnir séu stofnanir sem hafi í raun beinan aðgang að heimilum landsins og geta í raun sótt þangað allt það sem þeir vilja sækja. Það hafi reynslan hreinlega sýnt.
Hlusta má á nánari umfjöllun um stöðu heimilanna og efnahagsmálin í spilaranum hér að neðan