Það er algert lykilatriði að spyrja þá flokka sem vilja komast að völdum í næstu kosningum hvort þeir lofi því að fiskveiðiauðlindin verði skilgreind í stjórnarskránni sem sameign þjóðarinnar. Þetta segir Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.
Sett í lögin að veiðiheimildir veittu ekki eignarrétt af neinu tagi
Jón segir að þegar hann hafi setið í ríkisstjórn hafi framsal veiðiheimilda verið samþykkt vegna þess að ekki hafi verið samstaða um að koma á veiðigjöldum. Það var þó ákvæði sem sett var á móti sem kvað á um að veiðiheimildirnar myndu ekki mynda eignarrétt af neinu tagi og heldur ekki skaðabótarétt á hendur ríkinu yrði lögunum breytt seinna. Þá hafi verið ákvæði að veiðiheimldir væru tímabundnar. Það er algert lykilatriði að sett verði í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.
Veiðiheimildum skipt eins og hjúskapareign í hjónaskilnaðarmálum
Síðan þá hafi menn, því miður, gengið um veiðiheimildirnar eins og um eignarrétt væri að ræða. Þeir taka lán út á veiðiheimildir með veðsetningu. Veiðiheimildum væri skipt eins og hjúskapareign ef til hjónaskilnaðar kemur og svo framvegis. Jón segir að fara þannig með veiðiheimildirnar sé algerlega andstætt lögum. Einmitt þess vegna sé svo mikilvægt að skilgreina fiskveiðiauðlindina sem þjóðareign í stjórnarskrá og að því verði svo fylgt eftir af festu.
Eignarréttarákvæði um aðrar auðlindir eins og vatnið
Þá segir Jón að þetta eigi ekki einungis að eiga við um fiskveiðiauðlindina heldur aðrar auðlindir eins og vatnið sem hann segir ljóst að verði mjög eftirsótt auðlind þegar fram líða stundir.
Fjármunir í skattaskjóli á Kýpur
Hvað það varðar að fiskveiðiheimldir séu komnar á fárra manna hendur segir Jón Baldvin að það sé ákveðið vandamál að hér fari fiskur ekki á markað heldur sé hann allur fluttur út og sé seldur þar. Þeir fjármunir séu settir að hluta í skattaskjól á Kýpur og síðan komi hluti af peningunum til baka. Þeir séu nýttir til þess að fjárfesta með þeim afleiðingum að þeir sem fengu veiðiheimildirnar á silfurfati hafa nær eignast allt, meðal annars matvörukeðjurnar.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan