Viðbótarmenntun sjúkraliða formlega viðurkennd með reglugerð

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðarbreytingin felur í sér viðurkenningu á viðbótarmenntun sjúkraliða við Háskólann á Akureyri sem gerir þeim kleift að takast á við flóknari verkefni og takast á hendur aukna ábyrgð í störfum sínum.

„Það er mikil þörf fyrir fólk til starfa með menntun á þessu sviði. Eftirspurn eftir náminu sýnir að áhuginn er fyrir hendi og þetta gefur sjúkraliðum aukin tækifæri til starfsþróunar sem er líka mikilvægt“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Háskólinn á Akureyri hefur undanfarin þrjú ár boðið upp á viðbótarnám fyrir sjúkraliða sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni. Annars vegar er boðið upp á nám á sviði öldrunar- og heimahjúkrunar og hins vegar á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Ákvörðun um að koma náminu á fót var tekin árið 2020 og lagði heilbrigðisráðuneytið skólanum til 90 milljónir króna til undirbúnings. Námið er diplómanám á fagháskólastigi og telur 60 ECTS einingar. Sett var markmið um að unnt yrði að sinna kennslu fyrir um 20 nemendur á ári.

Fyrsti hópur nemenda sem hefur lagt stund á fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri í fyrravor, samtals 20 sjúkraliðar, allir af kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar. Sjúkraliðafélag Íslands gerði á liðnu ári könnun meðal sjúkraliða um áhuga þeirra á frekara framhaldsnámi á háskólastigi. Niðurstaða könnunarinnar leiddi í ljós að af um 500 sjúkraliðum sem tóku þátt í henni gátu um 80% sjúkraliða hugsað sér að hefja fagháskólanám við Háskólann á Akureyri og rúmlega 60% að hefja fagháskólanám við Háskóla Íslands. Þetta sýnir mikinn áhuga sjúkraliða á frekara námi á háskólastigi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila