Viðskiptaráð leggur til að útboð á Drekasvæðinu verði endurnýjað

Viðskiptaráð Íslands gaf nýlega út úttekt um olíuleit á Drekasvæðinu þar sem stjórnvöld eru hvött til að bjóða út sérleyfi að nýju. Í úttektinni er bent á að hugsanlegur olíufundur gæti haft stórfelldan ávinning fyrir þjóðarbúið án þess að ríkissjóður beri fjárhagslega áhættu.

Málið rætt á Alþingi

Úttektin vakti þegar athygli á Alþingi þar sem Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, spurði Jóhann Pál Jóhannsson orku- og loftslagsráðherra um afstöðu ríkisstjórnarinnar til olíuleitar. Ráðherrann lagði áherslu á að helstu tækifæri Íslands lægju í grænni og endurnýjanlegri orku, en greindi þó frá því að Umhverfis- og orkustofnun myndi fara rækilega yfir öll gögn sem aflað var á Drekasvæðinu og að niðurstaða lægi fyrir fyrir áramót.

Andstæð sjónarmið tekin fyrir í Dagmálum

Olíuleit á Drekasvæðinu var einnig til umræðu í þættinum Dagmálum fyrr í vikunni. Þar tók Ragnar Sigurður Kristjánsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, þátt í pallborði ásamt rithöfundinum Andra Snæ Magnasyni. Í þættinum mótaðist lífleg umræða þar sem Andri Snær taldi óásættanlegt að hefja olíuleit á tímum loftslagsbreytinga. Ragnar benti hins vegar á að útboð sérleyfa þýddi enga fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð og hélt því fram að olíuleit og markmið í loftslagsmálum væru ekki ósamrýmanleg.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila