Vilhjálmur: Breyta þarf rekstri Ríkisútvarpsins

Breyta þarf rekstri Ríkisútvarpsins, taka það af auglýsingamarkaði og gera sömu hagræðingarkröfur til þess og annara stofnana í eigu ríkisins. Það er ljóst að Ríkisútvarpið nýtur óeðlilegra forréttinda á íslenskum fjölmiðlamarkaði og að rekstur þess, bæði með nefskatti og auglýsingatekjum, gefi stofnuninni ósanngjarna yfirburði gagnvart öðrum fjölmiðlum. Þetta segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Ríkisútvarpið fari aftur á fjárlög

Vilhjálmur bendir á að Ríkisútvarpið, sem fær fjárframlög í gegnum nefskatt, hafi einnig aðgang að auglýsingatekjum, sem brjóti gegn samkeppnisreglum. Hann telur að þetta fyrirkomulag sé ósanngjarnt og skaði samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Hann vill að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði alfarið breytt, taka það af auglýsingamarkaði og fjármagna það alfarið með framlögum úr ríkissjóði í gegnum fjárlög.

Ríkisútvarpið þarf ekki að takast á við hagræðingarkröfur eins og aðrar ríkisstofnanir

Að auki bendir Vilhjálmur á að Ríkisútvarpið, ólíkt öðrum ríkisstofnunum, virðist ekki þurfa að takast á við sömu hagræðingarkröfur. Hann telur að það þurfi að setja Ríkisútvarpið undir sömu fjárhagslegu reglur og aðrar stofnanir ríkisins og að það ætti ekki að njóta sérstakra undanþága frá hagræðingaraðgerðum. Vilhjálmur gagnrýnir einnig að Ríkisútvarpið fái sjálfkrafa auknar tekjur þegar fleiri greiðendur bætast við í gegnum nefskattinn, án þess að þurfa að sýna fram á aukinn kostnað í rekstri.

Ríkisútvarpið hefur ekki staðist samkeppniskröfur EES samningsins

Vilhjálmur vekur athygli á því að Ríkisútvarpið hafi ekki staðist þær samkeppniskröfur sem gilda innan Evrópusambandsins og EES-samningsins, þar sem ekki sé heimilt að vera bæði með auglýsingatekjur og skatttekjur á sama tíma. Hann telur því réttast að Ríkisútvarpið hætti að vera á auglýsingamarkaði og að samkeppni í fjölmiðlun verði jöfn og sanngjörn.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila