Vilhjálmur: Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst talsamband við kjósendur sína

Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir verulegum áskorunum á þessum tímum, bæði vegna þess að flokkurinn hefur misst talsambandið við þjóðina og flókins stjórnarsamstarfs við Vinstri græna. Þetta segir Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Vilhjálmur segir að erfiðlega hafi gengið að takast á við þær efnahagslegu áskoranir sem þrengja mjög að fólki núna eins og hátt vaxtastig og verðbólgu sem hefur leitt til aukinnar óánægju almennings. Þessi staða hefur einnig haft neikvæð áhrif á fylgi flokksins.

Hefur misst tengslin við kjósendur

Þá segir Vilhjálmur að eitt af þeim vandamálum sem Sjálfstæðisflokkurinn glímir við er að hafa misst tengslin við kjósendur. Flokkurinn hefur átt erfitt með að koma skilaboðum sínum á framfæri á árangursríkan hátt. Talsambandið við þjóðina hefur veikst. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn haldi fast í grunngildi sín og stefnu, hefur flokkurinn ekki náð að miðla þessum áherslum eins vel til kjósenda og áður. Þetta hafi skapað togstreitu innan flokksins um hvernig eigi að bæta úr og vinna aftur traust almennings.

Samstarfið við Vinstri græna veldur spennu

Þá hafi samstarfið við Vinstri græna einnig skapað mikla spennu, þar sem flokkarnir hafa mjög ólíkar áherslur í ýmsum stórum málum. Hvalveiðimálið er eitt af þeim málum sem skapað hefur verulegan ágreining innan ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að gera málamiðlanir sem fara á svig við eigin stefnu til að halda samstarfinu gangandi, sem hefur valdið gremju innan flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn náð árangri þrátt fyrir erfitt stjórnarsamstarf

Hann segir að þrátt fyrir erfiðleikana í samstarfinu hafi Sjálfstæðisflokkurinn náð árangri á ákveðnum sviðum sem dæmi í landamæra- og orkumálum. Flokkurinn hefur lagt áherslu á ábyrga fjármálastjórn og stöðugleika, en þetta hefur þó ekki nægt til að draga úr óánægju kjósenda. Flokkurinn glímir nú við þá áskorun að endurheimta traust þjóðarinnar og bæta tengslin við kjósendur, en á sama tíma viðhalda stjórnarsamstarfi sem þykir nauðsynlegt til að forðast enn meiri pólitískan óstöðugleika. Hann segir að það hefði ekki verið kostur að slíta samstarfinu við Vinstri græna því aðrir flokkar hafi einnig áherslur sem séu mjög ólíkar þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi, til dæmis hvað varðar atvinnufrelsi.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila