Vilja auka fjárfestingar ríkissjóðs um 60 milljarða á næstu þremur árum

Viðreisn leggur til að fjárfestingar ríkissjóðs verði auknar um 60 milljarða á næstu þremur árum til þess að vega á móti þeim efnahagssamdrætti sem nú er hafinn Þetta kom fram á blaðamannafundi þingflokks Viðreisnar sem haldinn var í dag. Lagt var til að fjárfestingarnar verði fjármagnaðar með sölu á þriðjungshlut í Íslandsbanka auk þess sem fjárfestingum áranna 2023 og 2024 verði flýtt. Fjárfestingar hins opinbera hafi verið langt undir meðaltali allar götur frá hruni og mikilvægt er að nýta þann efnahagsslaka sem nú er að myndast til í þessum efnum. Viðreisn vari eindregið við því að dregið verði úr fjárfestingaráformum eins og ríkisstjórnin boðar.
Þau lögðu til að þungi fjárfestinganna fari í að hraða vegaframkvæmdum er tengjast Borgarlínu og að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar. Þá lögðu þau til að óvissusvigrúm fjármálastefnunnar verði aukið úr 0,4% í 1,5% til að skapa nauðsynlegt svigrúm, og að henni verði skipt milli ríkis og sveitarfélaga enda óraunhæft að ætla ríkinu svigrúm án þess að byggðum landsins sé veitt sambærilegt andrými.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila