Eiríkur Ingi Jóhannsson forsetaframbjóðandi sem var gestur í þætti Kristjáns Arnar Elíassonar í dag segir ekki ganga upp að ráðherrar sitji einnig sem þingmenn því þannig séu þeir orðnir of valdamiklir og gerir það að verkum að þingmenn fari frekar samkvæmt flokkslínum í stað þess að fara eftir eigin sannfæringu.
Eiríkur segir að verði hann kjörinn forseti myndi hann nýta þann tíma þar til hann tæki við hvernig hann myndi skipuleggja störf sín. Hann segir að eitt af hans fyrstu verkum væri að gera þinginu grein fyrir því að þegar kosið yrði næst á þing þá myndi næsta þing verða skipað utanþingsráðherrum sem aðeins væri ætlað að leggja fram lagafrumvörp en ekki kjósa með eða á móti frumvörpunum.
Ráðherrar eiga ekki að vera alþingismenn á sama tíma
Þannig segir Eiríkur að hægt væri að rjúfa þá hefð sem skapast hefur að ráðherrar sitji einnig sem þingmenn og því yrði lagasetning mun lýðræðislegri og tryggt væri að þingmenn samþykki eða hafni lögum samkvæmt eigin sannfæringu.
Hann segir að hann sé ósammála því að menn eigi að túlka stjórnarskrána enda sé stjórnarskráin afar skýr og alger óþarfi að túlka hana og láta hefðir ráða því hvernig landinu sé stjórnað.
Stjórnarskránni stendur ógn af ráðherraræðinu
Hann bendir á að í raun stafi stjórnarskránni hættu af því ráðherraræði sem sé við lýði á Íslandi og nú þegar séu komin merki þess að ráðherrar vilji til dæmis takmarka völd forseta sem sé eini einstaklingurinn sem sé kjörinn af þjóðinni og hafi það hlutverk að standa vörð fyrir hana. Með því að takmarka völd forseta er verið að gera honum erfitt fyrir að standa þennan vörð.
Skoðanakannanir hafa áhrif á kjósendur
Þá segir Eiríkur að hann sé fylgjandi því að sett verði bann við því að skoðanakannanir séu gerðar í tiltekinn tíma áður en forsetakosningar fara fram því skoðanakannanir hafi augljóslega áhrif á fylgi frambjóðenda. Fólk sé áhrifagjarnt og hvetur Eiríkur fólk til þess að láta kannanir ekki hafa áhrif á afstöðu sína.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan