Vill fækka opinberum samkeppnissjóðum úr átta í þrjá

Hægt væri að auka árangur og skilvirkni opinberra samkeppnissjóða á Íslandi með því að fækka samkeppnissjóðum hins opinbera um helming og búa til eina umsóknargátt fyrir alla sjóði. Í greiningu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis (HVIN) er áætlað að slík breyting gæti sparað ríkinu um 500 milljónir króna árlega. Átta samkeppnissjóðir eru starfræktir á vegum HVIN í dag en ráðuneytið vinnur nú að því að sameina þá í þrjá.  

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti niðurstöður greiningar HVIN á ríkisstjórnarfundi í vikunni og þrjár aðgerðir sem þar eru lagðar til. Það eru:  

  • Fækkun samkeppnissjóða um helming 
  • Ein umsóknargátt  
  • Reglulegt mat á því hvort og hvernig fjármagnið nýtist samfélaginu 

Áslaug Arna segir nauðsynlegt að ráðast í breytingar á núverandi fyrirkomulagi sjóðaumhverfisins svo að fjármunir skili sér betur á áfangastað. Með sameiningu sjóða, samhliða áframhaldandi eflingu þeirra, muni sjóðirnir hafa betri burði til að takast á við stærri verkefni.



„Öflugir innlendir samkeppnissjóðir skipta miklu máli fyrir rannsóknir og nýsköpun á Íslandi enda er markmið okkar að auka samkeppnishæfni Íslands og gera hugvitið að stærstu útflutningsgreininni. Með því að ráðast í þessar þrjár aðgerðir getum við ekki aðeins nýtt fjármuni betur heldur jafnframt bætt umhverfi opinberra samkeppnissjóða svo um munar. Ráðuneytið vinnur nú að sameiningu sjóða á okkar vegum og hyggjumst við jafnframt vinna með öðrum ráðuneytum þannig að þau geti farið sömu leið.“ segir Áslaugl 

1. Fækkun sjóða

Við greiningarvinnuna var m.a. horft til svara ráðuneyta við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem voru gagnleg í heildarúttekt á stuðningi við nýsköpun og opinbera samkeppnissjóði. Greiningarvinnan leiddi í ljós að hið minnsta 75 samkeppnissjóðir á vegum ráðuneyta úthluta styrkjum til ýmissa verkefna. Umfang einstakra sjóða er mjög misjafnt og eru úthlutanir allt frá nokkrum milljónum í nokkra milljarða. 

Heildarfjármagn í styrkjakerfinu er á milli 20 til 25 milljarða króna á ári. Auk þess tekur Ísland þátt í erlendum styrkáætlunum, svo sem Horizon Europe og Digital Europe, og greiða stjórnvöld rúma 5,5 milljarða króna til samstarfsáætlana Evrópusambandsins. Samtals fara því hátt í 30 milljarðar króna árlega í gegnum einhvers konar sjóðakerfi á vegum ríkisins.   

Í vinnunni kom í ljós að 37 mismunandi umsýsluaðilar eru fyrir fyrrnefndu sjóðina 75. Við blasir að hverjum sjóði fylgir ákveðin föst vinna, óháð umfangi hans. Því eru smæstu sjóðirnir mjög óhagkvæmir og algengt er að kostnaður við umsýslu þeirra sé á bilinu 10-20% af því fjármagni sem ráðstafað er úr þeim.  

Fjöldi sjóða leiðir þannig til umtalsverðrar sóunar í kerfinu. Þannig mætti lækka umsýslukostnað með fækkun stjórna, en af þeim 75 sjóðum sem stjórnvöld fjármagna eru að minnsta kosti 55 með skipaðar stjórnir. Þar eru ekki taldar með úthlutunarnefndir eða fagráð. Í flestum stjórnum sitja 3-5 stjórnarmenn sem í langflestum tilvikum fá greitt fyrir stjórnarsetuna. Áætla má að stjórnarmenn séu í heild um 220 til 240 talsins og að umsýslukostnaður sjóðanna sé vel yfir milljarður króna árlega. 

Að mati HVIN væri hægt að fækka opinberum samkeppnissjóðum um að minnsta kosti helming sem myndi spara ríkinu um hálfan milljarð á ári. Það væri gert með því að:

  • Leggja niður sjóði 
  • Sameina sjóði 
  • Opinber verkefni verði fjármögnuð með gagnsærri hætti 
  • Útboð nýtt betur í stað sjóðaúthlutana 

Unnið er að því að samkeppnissjóðum HVIN verði fækkað úr átta í þrjá. Samhliða verður skerpt á hlutverki Rannís sem víðtæk umsýslu- og þjónustustofnun opinberra samkeppnissjóða. 

2. Ein umsóknargátt 

HVIN mun í samstarfi við Stafrænt Ísland og RANNÍS koma á einni sjóðagátt sem allir opinberir aðilar geti nýtt sér með hagkvæmum hætti. Gáttin mun auka skilvirkni og hagkvæmni og ýta undir það að hægt sé að fækka sjóðum með einfaldari hætti. Jafnframt veitir hún betri yfirsýn og bætir nýtingu fjármagns sem kemur í veg fyrir sóun sem getur numið umtalsverðu fjármagni á ári hverju. Þá mun ein gátt auðvelda umsækjendum, frumkvöðlum og fyrirtækjum aðgengi að tækifærum. 

3. Reglulegt mat á því hvort og hvernig fjármagn úr sjóðum nýtist samfélaginu

Unnið er að undirbúningi lagabreytinga sem tryggja að samfélagsleg áhrif samkeppnissjóða verið metin með reglubundnum hætti. Erfitt er að réttlæta tilurð sjóða sem ekki er hægt að sýna fram á að skili umtalsverðum samfélagslegum ávinningi. Unnið verður að því að önnur ráðuneyti geti nýtt þá ferla fyrir sambærilegt mat.  

Átta sjóðir HVIN í þrjá

Unnið er að breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (3/2003) en undir þá löggjöf falla Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og Markáætlun ásamt starfsemi Rannís. Við endurskoðun laganna verður skerpt á hlutverki Rannís sem víðtæk umsýslu- og þjónustustofnun opinberra samkeppnissjóða enda þjónustar Rannís flest ráðuneyti með einhverjum hætti. Einnig verður litið til þess að hjá Rannís safnast mikið af upplýsingum og gögnum um sjóðaumhverfið, umsækjendur og styrkþega ásamt árangri og áhrifum styrkveitinga, sérstaklega á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Samhliða lagabreytingunum er unnið að því að sameina sjóði HVIN úr átta í þrjá samkvæmt þeim meginlínum að aðskilja annars vegar þá sjóði sem eru opnir frá þeim sem lúta áherslum stjórnvalda hverju sinni og hins vegar aðskilja grunnrannsóknir frá hagnýtum rannsóknum og nýsköpun. Lækkun umsýslukostnaðar sem hlytist af þessum sameiningum myndi ráðast af endanlegri útfærslu, en ætla má að lækkunin næmi tugum milljóna. 

1.  Grunnrannsóknir

Gert er ráð fyrir að grunnrannsóknasjóður væri opinn sjóður sem fæli í sér sameiningu Rannsóknasjóðs og Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna og mögulega einnig Innviðasjóðs, að gefnu samráði við hagaðila. 

2.  Nýsköpunar- og þróunarsjóður

Hinn opni sjóðurinn sem væri starfræktur undir hatti HVIN byggði á því að sameina Tækniþróunarsjóð og Nýsköpunarsjóð námsmanna þar sem áherslan yrði á hvers kyns nýsköpun og hagnýtingu þekkingar. Einnig mætti skoða hvort að Innviðasjóður gæti átt heima hér undir þar sem að rannsóknainnviðir koma oft beint að prófunum og hagnýtingu rannsókna. 

3. Áherslusjóður

Auk þessara sjóða yrði til áherslusjóður eða markmiðasjóður sem væri farvegur fyrir áhersluverkefni sem stjórnvöld vilja beita sér fyrir á hverjum tíma. Á vettvangi HVIN fæli þetta í sér sameiningu núverandi Markáætlunar, Lóu og Fléttu. Auk þess væri heppilegt að hafa alla alþjóðlega samfjármögnun í þeim sjóði. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila