Vindmylluvíkingar herja á fjárvana sveitarfélög

Það er áhyggjuefni að byrjað skuli á röngum enda þegar kemur að vindmylluvæðingunni á Íslandi, sérstaklega þegar ekki hefur verið mótað regluverk til þess að fara eftir. Þetta veldur því að fjársterkir einkaaðilar koma með fullar hendur fjár og herja á fjárvana sveitarfélög í þeim tilgangi að fá land undir vindorkuframleiðslu, félög eins og Qair með Ólaf Ólafsson úr samskip og Tryggva Þór Herbertsson í fararbroddi eru meðal þeirra sem sækjast eftir landrými. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Í leit að sannleikanum í dag en þar voru gestir Arnars Þórs Jónssonar þau Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Arnfinnur Jónassonar jarðvinnuverktaki sem hafa látið málaflokkinn sig varða og verið virk í umræðunni um þessi mál.

Arnfinnur segir að það sé ekkert launungarmál að vindurinn geti verið góð orkuuppspretta og virkjun þeirrar uppsprettu sé eitthvað sem komi til með að verða en nauðsynlegt sé að byrja á réttum enda svo ekki fari illa, það sé alls ekki vænlegt að farið sé af stað og að umræða fari fram eftir að farið sé af stað og reglur séu settar eftirá líkt og gerst hefur í laxeldinu.

„það þarf að fara fram einhver umræða sem ekki hefur farið fram hingað til og auðvitað þarf hið opinbera að fara fyrir í þessum málaflokki og setja leikreglurnar, skilgreina hvað eigi að gera og hvernig skuli staðið að því áður en einkafyrirtæki byrji á að klukka þá staði sem þeim langi til að vera á og við beygjum okkur svo undir það“segir Arnfinnur.

Kristín Helga segir það undarlega stöðu að íbúar í sveitum landsins þurfi að verjast ágangi einkaaðila sem ásælast svæði undir vindorkuver.


„mér finnst skrítið að almenningur og íbúar í sveitunum séu einhvern veginn komnir út á tún með uppbrettar ermar við að verja löndin sín fyrir prívatfyrirtækjum þar sem gróðahyggjan ein ræður ríkjum og leiðir þann leiðangur“.

Hún segir þarna vera um tvær birtingarmyndir vera að ræða, sú stóra mynd sem snýr að orkumálum þjóðarinnar og hvernig menn ætli að skila landinu til komandi kynslóða.

„og svo litla myndin sem snýr að okkur Arnfinni og sveitungum okkar á Vesturlandi sem núna halda að sér höndum því þarna um allt er fólk með rekstur, ferðaþjónustu, búskap og svo framvegis en sveitastjórnirnar standa ekki við bakið á þessu fólki og pólitíkin er að bregðast því, litla myndin af þessu blasir við okkur og þess vegna stofnuðum við Arnfinnur hóp á Facebook sem heitir Mótvindur-Ísland þar sem fyrirmyndin er Noregur því þeir eru búnir að standa í þessu stappi og misstu þetta frá sér í einkaeigu og það endaði í þannig sirkus að raforkan hefur hækkað upp úr öllu valdi þar“ segir Kristín.

Kristín veltir fyrir sér hvort sveitarfélögin séu ekki of valdamikil þegar kemur að því að taka ákvarðanir hvað varðar úthlutun lands undir stór vindorkuver.

„það eru margir einkaaðilar sem herja á okkur og sveitarfélögin eru mörg á hvínandi kúpunni og þá koma menn eins og Ólafur Ólafsson sem er landeigandi hjá einu vindmyllukompaníinu sem heitir Cue Air og svo Tryggvi Þór Herbertsson, þeir mæta allir og bjóða peninga og hvað gera þá sveitarfélögin? ég velti því fyrir mér“ segir Kristín.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila