GPS mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Í tilkynningunni segir að á sama tíma hafi dregið úr flæði frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Það bendi til þess að innflæði í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé meira en flæði úr eldgosinu á yfirborðinu. Þróunin er svipuð og eftir að síðasta gos hófst þann 29. maí. Þá byrjaði landris í Svartsengi að verða greinanlegt um tveimur vikum eftir að gosið hófst.
Virknin í eldgosinu heldur áfram að minnka síðustu daga. En áfram virðast þó tvö gosop vera virk. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka á hægum hraða til norðurs og þykknar einnig á sama tíma. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Mælingar á gosóróa og gasútstreymi frá eldgosinu benda einnig til þess að dregið hafi nokkuð úr gosinu síðustu daga.