Fjögur Norðurlönd í samvinnu um lyfjamál

Efnt hefur verið til samstarfs fjögurra norrænna þjóða um lyfjamál. Samráðshópurinn (Nordisk Lægemiddel Forum, NLF) var stofnaður árið 2015 að frumkvæði AMGROS, en það er dönsk stofnun rekin af héraðsstjórnum þar í landi með það að markmiði að ná hagstæðum útboðum og samningum í lyfjainnkaupum fyrir danska markaðinn.
Sagt er frá samstarfinu í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar.  Eins og þar kemur fram er hugmyndin með samráðsnefndinni að koma á óformlegum vettvangi sem miðar að því að fá betri yfirsýn, miðla þekkingu og deila verkefnum í því skyni að stuðla að sameiginlegum lausnum. Löndin sem þegar taka þátt í starfinu eru Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Fulltrúar Íslands eru Hulda Harðardóttir, Landspítala, og Einar Magnússon, velferðarráðuneytinu.
Vinnuhópar á vegum NLF skoða m.a. forspá vegna innleiðingar nýrra lyfja (horizon scanning), öryggi markaðarins, og möguleika á sameiginlegum útboðum og/eða verðsamningum vegna lyfjakaupa í því skyni að lækka innkaupskostnað. Í sumar var hafist handa við að kanna möguleikana á þessu, m.a. með tilliti til lagalegra sjónarmiða í hverju landi. Fram kemur í tilkynningu að frekari ákvörðunar sé að vænta í byrjun næsta árs.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila