ISIS lýsir yfir ábyrgð á hryðjuverkinu í Manchester

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð sinni á hryðjuverkinu í Manchester Arena sem framið var í gærkvöld. Í tilkynningu sem samtökin birtu á vefsvæði sínu er því haldið fram að ekki hafi verið um sjálfsmorðssprengjuárás hefði verið að ræða heldur hefði einn af hryðjuverkamönnum innan samtakanna komið fyrir sprengjum inni í tónleikahöllinni. Yfirvöld í Bretlandi telja sig hafa upplýsingar um hver hafi verið að verki en ekki hafa verið gefnar frekari upplýsingar um þann aðila. Þá hafa tveir einstaklingar verið handteknir í þágu rannsóknar málsins. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sendi í morgun Elísabetu Englandsdrottningu samúðarkveðjur en í kveðjunni sagði forsetinn mikilvægt að hugur Íslendinga væri hjá þeim særðu og ástvinum hinna látnu, og að hann mæti mikils viðbrögð þeirra sem komu slösuðum til bjargar. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir sendu Bretum sömuleiðis samúðarkveðjur og sagði Bjarni í sinni kveðju að hugur hans væri hjá Bretum á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila