Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins funduðu í Brussel

Þróun öryggismála, efling sameiginlegra varna og baráttan gegn hryðjuverkum voru meðal umræðuefna á fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins í Brussel í vikunni. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði breyttar horfur í öryggismálum meðal annars að umtalsefni á fundinum   „Atlantshafsbandalagið er meginstoðin í samvinnu Evrópu og Norður-Ameríku en breyttar öryggishorfur kalla á virkari þátttöku og framlög allra bandalagsríkja. Ísland hefur verið að auka framlög til öryggis- og varnarmála m.a. með því að bæta gistiríkjastuðning í Keflavík og auka þátttöku í störfum bandalagsins. Voðaverkin í Manchester voru eðlilega ofarlega í hugum allra og settu mark sitt á umræðuna“, sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra sem sótti fundinn.  Leiðtogarnir áréttuðu fyrri skuldbindingar um að auka framlög til öryggis- og varnarmála á næstu árum til að mæta nýjum áskorunum og jafna byrðarnar af sameiginlegum vörnum bandalagsins. Aðgerðir til að stemma stigu við hryðjuverkum og auka stöðugleika í veikburða ríkjum voru einnig til umræðu. Leiðtogarnir samþykktu að bandalagið tæki virkari þátt í baráttunni gegn hryðjuverkum í nánu samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir og samstarfsríki. Samhliða því verður stuðningur við umbætur í öryggis- og varnarmálum í samstarfsríkjum aukinn til að gera þeim betur kleift að standa vörð um eigið öryggi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila