Mikill áhugi á reynslu Íslands

briefing-laAðgerðir Íslands í kjölfar fjármálaáfallsins 2008 og efnahagsárangurinn sem náðst hefur á undanförnum árum var inntakið í fyrirlestri sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hélt fyrir bandaríska hagfræðinga í The National Economists Club í Washington í gær. Í fyrirlestrinum fór Lilja yfir aðdraganda og áhrif fjármálaáfallsins, til hvaða aðgerða íslensk stjórnvöld hafa gripið á undanförnum átta árum og hverju þær hafa skilað.

Finna fyrir miklum áhuga

,,Við finnum víða fyrir miklum áhuga, bæði á einstökum aðgerðum og þeirri aðferðafræði sem verið hefur leiðarljósið í vinnu okkar undanfarin ár; að tryggja skilyrðislausa greiðslugetu ríkissjóðs Íslands ásamt því að grípa til aðgerða svo greiðslujöfnuður þjóðarbúsins sé sjálfbær.“
Í fyrirlestrinum setti Lilja aðgerðirnar í alþjóðlegt samhengi og fjallaði m.a. um áhrif ytri aðstæðna, sem hafa um margt verið hagfelldar ásamt því að vöxtur ferðamannaþjónustu á Íslandi hafi skilað þjóðarbúinu miklu.

Staða landsins vekur athygli

,,Staða Íslands vekur talsverða athygli, enda var hún grafalvarleg fyrir aðeins fáeinum árum. Það er mín skoðun að réttar stefnumótandi ákvarðanir hafi verið teknar á öllum stigum málsins, samhliða því sem hagkerfið hefur einnig notið góðs af hagfelldum ytri aðstæðum.
The National Economists Club í Washington er vettvangur hagfræðinga til að skiptast á skoðunum um efnahagsmál, viðskipti og pólitíska stefnumótun, bæði á fræðilegum og hagnýtum grunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila