Minnst 22 látnir eftir hryðjuverkaárásina í Manchester

Staðfest hefur verið að minnsta kosti 22 hafi látist í hryðjuverkaárásinni í Manchester Arena í gærkvöld og þá herma fregnir að minnsta kosti 59 hafi verið fluttir á sjúkrahús. Margir hinna látnu eru á barnsaldri en þegar árásin var gerð var söngkonan Ariana Grande að ljúka tónleikum sínum. Talið er fullvíst að um sjálfsmorðssprengjuárás hafi verið að ræða og að ódæðismaðurinn hafi virkjað sprengju sem hann hafði falið í tösku eða bakpoka. Fjölmargir foreldrar sem áttu börn á tónleikunum hafa sett af þeim myndir á samfélagsmiðla þar sem þeir óska eftir upplýsingum um afdrif þeirra en enn er fjölmargra saknað eftir árásina. Þrír stærstu flokkar Bretlands hafa samþykkt að gera ótímabundið hlé á kosningabaráttu sinni í kjölfar voðaverksins. Þá hefur söngkonan Ariana Grande sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist gjörsamlega orðlaus yfir ódæðinu og að hún taki það afar nærri sér að það skuli hafa átt sér stað á tónleikum hennar. Utanríkisráðuneytið hvetur íslendinga sem á voru á tónleikunum að láta ættingja vita af sér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila