Nýnazistar og öfgahægri vígamenn síst hættuminni en íslamskir vígamenn – búast má við fleiri hryðjuverkum eftir Christchurch

Blómaskreytingar fyrir þá 50 einstaklinga sem féllu fyrir kúlum fjöldamorðingjans í Christchurch Nýja Sjálandi/skjáskot sænska sjónvarpið.

Tala látinna er uppi í 50 og nokkrir berjast fyrir lífum sínum. Meðal fórnarlamba voru börn, það yngsta aðeins þriggja ára og annað fjögurra ára. Eiginkona manns í hjólastól féll fyrir kúlum er hún reyndi að bjarga manni sínum. Þau höfðu flúið stríðið í Sýrlandi til að fá að búa í friði á Nýja Sjálandi. Aðrir segja svipaða sögu og þeir sem komust lifandi af hafa flestir misst náinn ættvin. Tugir manns eru særðir. Sorgin og reiðin er yfirþyrmandi í þessum áður svo friðsama bæ og í viðtölum við bæjarbúa eru þeir felmtri slegnir að menn komi erlendis frá til að fremja slíkt hryðjuverk á saklausum mönnum, konum og börnum.

Hryðjuverkasérfræðingum ber saman um að gríðarleg hætta stafi af hægri öfgamönnum, t.d. segir Paul Goldenberg sérfræðingur í hægri öfgastefnum, að hópum eins og ”Hvítu valdahreyfingunni” hafi vaxið fiskur um hrygg og búast megi við fleiri svipuðum árásum eftir hryðjuverkið í Christchurch: ”Því miður stækkar Hvíta valdahreyfingin og hún vex mjög hratt.”  Hann segir öfgafulla hægri einstaklinga hafa getu til að fremja hryðjuverk og nota Internet til að dreifa hugmyndafræðilegum áróðri sem gefur hreyfingunni styrk. Internet gefur möguleika til að ná til margra og jafnframt safna liði og hvetja til ofbeldisverka: ”Ég er ekki í nokkrum vafa um að við eigum eftir að sjá fleiri slík voðaverk eftir atburðinn í Christchurch. Nýnazistar og hægri öfgamenn hafa getað farið sínu fram að undanförnu og lögreglan þarf að veita þessum hópum miklu meiri athygli til að skilja betur hvernig þeir ógna lýðræðinu”.
Svipaða sögu hafði Klas Friberg yfirmaður sænsku leynilögreglunnar SÄPO að segja í viðtali við sænska sjónvarpið: ”Sænska leynilögreglan hefur í mörg ár varað við hægri öfgamönnum sem sérlega hættulegum hryðjuverkamönnum með getu til að fremja fjöldamorð á saklausu fólki.” Magnus Ranstorp hryðjuverkasérfræðngur í Svíþjóð segir að fram hafi komið viðvörunarmerki sem hefðu átt að sjást og komast til lögreglunnar fyrir ódæðið en ”féllu milli stólanna”. Hann telur að hryðjuverk íslamskra vígamanna í Evrópu hafi verið hvati fyrir Brenton og aðra öfgahægri vígamenn og bendir á að t.d. í Englandi hafi verið komið í veg fyrir hægri ofbeldisverk. Oft sé um að ræða einfara sem vafri á Internet milli ólíkra öfgakennisetninga og hópa. T.d. sé hryðjuverkið í Christchruch hyllt í vissum hópum og 60-70% hryðjuverkaeinfara segja fyrirfram frá fyrirhuguðu illdæði. Brenton risti ekki bara á vopnin heldur einnig á patrónurnar og sýndi á netinu þremur dögum fyrir árásina. Þarna liggja upplýsingarnar á netinu og þá spyr maður sig af hverju sá enginn neitt og varaði lögregluna við?
Í skjali Brentons lýsir hann ósk sinni að hryðjuverkið auki spennu milli öfga íslamista og hægri öfgaafla og kveiki stríð milli þeirra. Hvað svo sem kemur er ljóst að nýnazistar og aðrir öfga hægri vígamenn nota sömu aðferðir og ÍSIS, þ.e.a.s. að ráðast þungklyfjaðir vopnum á vopnlaust fólk til að drepa eins marga og hægt er á sem skemmstum tíma. Skiptir engu máli hvort konur eða börn eru fórnarlömb. Sjá nánar hér, hér og hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila