Skotárásir og uppþot í Svíþjóð

Mikið annríki hefur verið hjá sænsku lögreglunni undanfarna mánuði vegna tíðra skotárása. Í gærkvöldi var sænsku lögreglunni tilkynnt um enn eina skotárásina en hún átti sér stað í Gautaborg. Þar hafði karlmaður verið skotinn til bana en enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins. Þá var önnur skotárás í Sundbyberg í Norður Stokkhólmi þar sem maður var skotinn til bana en þeir sem grunaðir eru um verknaðinn sáust fara af vettvangi á mótorhjóli, enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. Þá þurfti lögregla að takast á við uppþot í Trollhättan en steinum var kastað í lögreglu og dekk skorin á lögreglubifreiðum þegar hún hugðist koma böndum á ástandið en uppþotin byrjuðu sem uppgjör tveggja gengja sem vopnuð voru kylfum og felgulyklum. Einn var handtekinn og sluppu lögreglumennirnir óslasaðir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila