Stefnt að aukinni fríverslun milli Vestur-Norðurlanda

Vestnorræna ráðið fundar með utanríkisráðherrum Íslands, Grænlands og Færeyja. Ljósmyndari: Bragi Þór Jósefsson.

Á ársfundi Vestnorræna ráðsins, samstarfsráðs þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands,  í dag lýstu utanríkisráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja yfir vilja til að vinna gagngert að því auka samstarf landanna þriggja á ýmsum sviðum. Sérstök áhersla er lögð á að auka fríverslun á milli landanna, þar á meðal með því að skoða möguleikann á vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði. Ráðgert er að samstarfssamningur þessa efnis verði undirritaður á fundi ráðherranna síðar í dag. Sérstakur vinnuhópur verður settur á fót sem mun hafa það verkefni að greina hvar möguleikar til aukins samstarfs helst liggja. Þá er ráðgert að utanríkisráðherra landanna hittist árlega til að ræða samstarf sitt. Vestnorræna ráðið fagnar samstarfssamningi ráðherr­anna sem er í beinu sam­ræmi við álykt­anir ráðsins frá ár­unum 2012-2015, sem kalla gagngert eftir auknu samstarfi landanna um málefni norðurslóða, fríverslun, samgöngur og innviði. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, sagði á fundinum að Vestur-Norðurlönd geti aukið og dýpkað samstarf sitt verulega, þar á meðal um málefni norðurslóða, og að íslensk stjórnvöld væru því mjög fylgjandi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila