Umhverfisráðherrar ályktuðu um umhverfismál á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna

Frá ráðstefnunni.

Umhverfisráðherrar heimsins ályktuðu m.a. um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, úrgangsstjórnun og sjálfbæra nýtingu lands á á nýafstöðnu Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna. Einnig voru fjölmargar ályktanir um tiltekin málefni samþykktar á þinginu, þar á meðal ályktun um ferli til að ná á alþjóðavísu utan um plastmengun í hafi og örplast. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekið þátt í fjölda leiðtogaumræðna, funda og annarra viðburða á þinginu.

Í ályktun umhverfisráðherranna er lögð áhersla á hringrásarhagkerfið og að skilgreind verði sem fyrst metnaðarfull landsmarkmið ríkja við að draga úr myndun úrgangs, auka endurnýtingu hluta og endurvinnslu úrgangs. Ráðherrarnir lýsa því einnig yfir að þeir muni með afgerandi hætti takast á við þær afleiðingar sem einnota plastvörur hafi á vistkerfi, þar með talið með því að hætta notkun á þeim einnota plastvörur sem mestum vandkvæðum valda fyrir umhverfið fyrir árið 2025.
Ein af fjölmörgum samþykktum þingsins var ályktun um að ná á alþjóðavísu utan um plastmengun í hafi og örplast. Ræddi Guðmundur Ingi einmitt mikilvægi þessa í ávarpi sínu á þinginu á föstudag.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila