Site icon Útvarp Saga

Bálhvasst á landinu og fjölmörg útköll hjá björgunarsveitum

Bálhvasst var víðast hvar á landinu í nótt og stóðu björgunarsveitir landsins í ströngu við að hefta fok lausamuna og festa þakplötur. Þá fór slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu einnig í fjögur útköll sem flest voru vegna þess að þakplötur voru farrnar að losna af nokkrum húsum í borginni.

Þá varð rafmagnslaust á svæðinu milli Árskógsands og Fagraskógs á fjórða tímanum í nótt vegna bilunar í háspennulínu en rafmagn komst á aftur á áttunda tímanum. Á sumum bæjum varð samtímis heitavatnslaust og er það rakið til rafmagnsleysisins og er enn heitavatnslaust á nokkrum bæjum eftir nóttina.

Veðrið næsta sólarhringinn:

Víða vestan 18-25 m/s fram á morgun, sums staðar dálítil úrkoma og hiti 7 til 14 stig.

Snýst í norðvestan 20-30 m/s á austurhelmingi landsins í dag, hvassast á Austfjörðum. Hættulegar vindhviður á Suðausturlandi og Austfjörðum. Mun hægari vindur vestanlands. Rigning nærri sjávarmáli á Norður- og Austurlandi, en slydda eða snjókoma á heiðum og til fjalla. Bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti í byggð frá 2 stigum í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 10 stig syðst á landinu.

Fremur hægur vindur á vesturhelmingi landsins á morgun, en norðvestan hvassviðri eða stormur austanlands. Víða þurrt og bjart veður, en dálítil rigning eða slydda á Austurlandi. Hiti 2 til 9 stig yfir daginn, mildast við suðurströndina.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla