Site icon Útvarp Saga

Dagbók lögreglu: Umferðaróhöpp, ökumenn undir áhrifum og slagsmál víða um bæinn

Töluverður erill var á vakt lögreglu í nótt og voru verkefnin nokkuð fjölbreytt. Tilkynnt var um fjórar líkamsárásir þar af er grunur um að í einu tilvikinu hafi um hópslagsmál hafi verið að ræða, en fimm einstaklingar voru vistaðir í fangageymslu í nótt vegna líkamsárásarmála.

Ökumaður í miðborginni sem stöðvaður var við reglubundið eftirlit reyndist ölvaður við aksturinn og á svipuðum slóðum var annar ökumaður stöðvaður og er hann grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Þá var ökumaður í Breiðholti handsamaður eftir að hafa valdið umferðarhóphappi og stungið af en hann er grunaður um ölvunarakstur.

Lögregla var kölluð til vegna ungra drengja sem höfðu klifrað upp á þak leikskóla í Kópavogi í gærkvöld og veitti lögreglan drengjunum tiltal og fræðslu um hættuna sem slík hegðun hefur í för með sér, einnig var rætt við foreldra þeirra.

Þá var lögregla kölluð til á veitingastað í Hafnarfirði vegna manns sem neitaði að yfirgefa veitingastaðinn og var honum vísað út. Einnig hafði leigubílstjóri samband við lögreglu vegna manns sem neitaði að greiða fargjald leigubílsins.

Skráð eru einnig nokkur innbrot og tilraunir til innbrota í dagbók lögreglu og eru málin til rannsóknar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla