Site icon Útvarp Saga

Deiliskipulag fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar kært til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála

Eigendur meirihluta jarðarinnar Drangavíkur hafa kært bæði deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga Hvalárvirkjunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá jarðeigendum.

Í tilkynningunni segir að farið sé fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar þar sem eigendur meirihluta jarðarinnar hafa ekki veitt sitt leyfi fyrir virkjanaframkvæmdum á svæðinu
Þinglýst landamerkjaskrá Drangavíkur og aðliggjandi jarða frá 1890 sýnir að Vesturverk og Árneshreppur hafa notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar.
Landamerkjabréfið frá 1890 staðfestir að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns er alfarið innan jarðarinnar Drangavíkur. Engar breytingar hafa verið gerðar á þessum landamerkjum eftir 1890. 
Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarár er sögð vera ein meginforsenda Hvalárvirkjunar. Við meirihlutaeigendur Drangavíkur erum á móti því að Hvalárvirkjun verði reist og höfum ekki í huga að semja við Vesturverk um nýtingu vatnsréttinda okkar í þágu virkjunar.
Við viljum að víðerni Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum. Hvalárvirkjun mun ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum, heldur þvert á móti eyðileggja þá möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs.
Hvalárvirkjun er ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og bygging hennar mun að auki leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum.“,segir í tilkynningunni. 
Þá gagnrýnir hópur eigendanna samráðsleysi vegna málsins “ Óskandi væri að þeir sem stýrðu áformum um Hvalárvirkjun hefðu verið með rétt landamerki á hreinu frá upphafi. Líklega hefðu virkjanaáform þá aldrei komist á skrið og forða hefði mátt togstreitu milli íbúa í Árneshreppi.
Engir aðrir en eigendur Vesturverks bera ábyrgð á því að kanna hverjir eru réttir eigendur þeirra auðlinda sem þeir vilja fénýta. Ekkert samráð var haft við okkur sem eigendur Drangavíkur við undirbúning Hvalárvirkjunar eða skipulagsvinnu.„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla