Site icon Útvarp Saga

Dómsmálaráðherra heimsótti embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti sér meðal annars starfsemi sérsveitarinnar og búnað þeirra.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti bæði embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara í vikunni. Þar átti hún samtal við bæði forráðamenn og starfsmenn embættanna um verkefnin, áskoranir og það sem vel gengur. Ráðherra og fylgdarlið byrjuðu hjá ríkislögreglustjóra þar sem Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, tók á móti hópnum.

Til umræðu var meðal annars almennur viðbúnaður lögreglunnar í ljósi hryðjuverkaógnar en hann er stöðugt til skoðunar hjá embætti ríkislögreglustjóra og uppfærður ef tilefni er til. Ráðherra spjallaði einnig við starfsmenn greiningardeildar og sérsveitar ásamt því að skoða aðstöðu þeirra og búnað.
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, tók síðar svo á móti ráðherra og fylgdarliði. Í tilkynningu segir að umræðurnar hafi verið afar gagnlegar, meðal annars um starfssvið embættisins sem sætt hefur breytingum en frá og með 1. janúar 2016 fara ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undanskildum ríkislögreglustjóra, með ákæruvaldið í landinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla