Site icon Útvarp Saga

Efling mótmælir þvingunaraðgerðum ríkissáttasemjara

Stéttarfélagið Efling tók við í dag fyrirkalli frá Héraðsdómi Reykjavíkur sem er til komið vegna aðfararbeiðni sem lögð hefur verið fram af Aðalsteini Leifssyni, ríkissáttasemjara. Í aðfararbeiðninni er þess krafist að Efling afhendi kjörskrár til afnota við atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sem Aðalsteinn hefur lagt fram í kjaradeilu SA og Eflingar.

Í tilkynningu segir að Efling hafi lýst því yfir að miðlunartillögu ríkissáttasemjara skorti lögmæti og sé markleysa. Þá telur Efling að ríkissáttasemjari hafi misnotað valdheimildir embættisins og kastað rýrð á það hlutleysi sem sé grundvöllur trúverðugleika embættisins. Af þeim sökum hafi stjórn félagsins lýst vantrausti á embættið.

Þá segir að öll helstu heildarsamtök launafólks á Íslandi hafi einnig gagnrýnt miðlunartillöguna og vinnubrögð embættisins.

Samkvæmt Eflingu metur stéttafélagið svo að ekki geti verið um miðlunartillögu að ræða þegar óskir annars aðilans í kjaradeilu eru teknar upp óbreyttar og sjónarmið hins aðilans séu með öllu hunsuð.

Þá sakar Efling embættið um fautaskap og segir að ríkissáttasemjara ganga erinda atvinnurekenda og þröngva vilja þeirra upp á verka- og láglaunafólk, á kostnað sjálfstæðs lögvarins samningsréttar þeirra, sem sé fáheyrður í sögu samskipta aðila vinnumarkaðins á Íslandi.

„Samkvæmt 27. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur 80/1938 ber ríkissáttasemjara að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber upp miðlunartillögu. Í 28. gr. er kveðið á um rétt deiluaðila til að koma á framfæri athugasemdum. Á fundi með formanni og starfsmönnum samninganefndar Eflingar síðastliðinn fimmtudagsmorgun afhenti Aðalsteinn Leifsson þeim tilbúna miðlunartillögu, og hafði þá þegar boðað til blaðamannafundar sem fara átti fram kl. 11. Aðalsteinn ætlaði sér aldrei að bjóða til samráðs við Eflingu eða gefa félaginu tækifæri til athugasemda, sem er lögbrot auk þess að afhjúpa að um er að ræða hlutdræga og einhliða þvingunaraðgerð.“ segir í tilkynningu Eflingar.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni:

„Með því að leggja fram umrædda aðfararbeiðni í stað þess að sjá sóma sinn í að víkja af braut augljósra mistaka hefur embætti ríkissáttasemjara kosið að sökkva sér dýpra ofan í fen eigin drambsemi. Efling mun standa gegn lögbrotum og átroðslu embættis ríkissáttasemjara af fullum þunga, og verja samningsrétt verkafólks.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla