Site icon Útvarp Saga

Flugfélag Íslands fyrst íslenskra flugfélaga með alþjóðlega umhverfisvottun

flugfelagidFlugfélag Íslands hefur lokið umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14000, fyrst allra flugfélaga á Íslandi.  Endurvinnsla hófst árið 2008 hjá Flugfélagi Íslands og síðan þá hafa verið tekin fleiri skref í sömu átt, til dæmis með því að draga úr notkun vatns, eyðslu orku og útblæstri.
Flugfélag Íslands hefur ávallt lagt mikið upp úr umhverfismálum og litið á það sem hluta af eðlilegri starfsemi fyrirtækisins. Það er ekki eingöngu ábyrgt að lágmarka umhverfisáhrif fyrirtækisins heldur stuðlar það að betri rekstri og bættri afkomu ef rétt er að málum staðið. Við erum stolt af því að vera fyrsta íslenska flugfélagið til að fá þessa alþjóðlegu vottun og er það í samræmi við stefnu félagsins að vera í fararbroddi í þessum málaflokki.“, segir Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands.
Úttektaraðili frá danska fyrirtækinu DNV GL hefur staðfest þessa alþjóðlegu umhverfisvottun fyrir Flugfélag Íslands.  Með vottuninni sýnir fyrirtækið ábyrgð á því að minnka skaðleg áhrif fyrirtækisins með því að nota auðlindir skynsamlega og farga úrgangi á ábyrgan hátt.  Þannig lágmarkast áhrifin á umhverfið að eins miklu leyti og því verður við komið. Umhverfisvottun Flugfélags Íslands er liður í stefnu Icelandair Group samstæðunnar og er tilgangurinn að minnka sem mest áhrif starfseminnar á umhverfið og náttúruna, sem spila stóran þátt í hlutverki fyrirtækjanna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla